Vortiltekt í fullum gangi

Bæjarbúar og fyrirtæki gera nú sitt besta til að gera hreint í kringum sig. Í síðasta tölublaði Stykkishólms-Póstsins birtist auglýsing fyrir Umhverfisdaga í Stykkishólmi. Dagarnir eru liður í átaki Stykkishólms til að gera bæinn að snyrtilegasta bæ landsins.

Átakið er í gangi dagana 20. – 26. maí og fyrirkomulagið er svo að einstaklingar, fyrirtæki og félög í bænum taka til í nærumhverfi sínu. Starfsmenn áhaldahúss fjarlægja síðan garðaúrgang við gangstéttarbrún á virkum dögum (og fyrir hádegi á föstudag).

Nýliðin helgi var einstaklega mild, veðurfarslega séð, og mátti sjá bæjarbúa nýta sér sólina til garðvinnu. Sláttuvélaniður ómaði um göturnar og ilmurinn af nýslegnu grasi lá yfir bænum í bland við ómótstæðilegan grillilminn. Það er augljóslega kappsmál að gera bæinn fallegan fyrir augað.

Miðbærinn er nú í yfirhalningu en þar standa yfir gangstéttaframkvæmdir við Aðalgötu á milli Hótels Egilsen og Narfeyrarstofu.

Veitingastaðir hafa verið málaðir, eða eru í málunarferli, svo þeir verði nú smekklegir fyrir gestina.

Höfnin var vinsæll áfangastaður göngugarpa í kvöldsólum helgarinnar. Fjöldi fólks skellti sér upp í Súgandisey og skoðaði þar eyjar og fuglalíf. Þá er risinn kofi á höfninni sem eru aðalstöðvar Ocean Adventures. Fyrirtækið býður upp á skoðunarferðir um eyjarnar og sjóstangveiði.

Vatnasafnið er nú í léttri fegrunaraðgerð fyrir 10 ára afmæli sitt.

Mynd er komin á bókasafnið við GSS. Búið er að setja upp grind á þakið sem verður eflaust kennileiti byggingarinnar en hún er eins og opin bók.

Sést hefur til sláttuvélagengis áhaldahússins á ferðinni, sem er hinn eini sanni vorboði.