Alltaf í boltanum

Það má segja að eitt taki við af öðru í heimi íþróttanna hér í bæ. Nú þegar körfuboltatímabilinu er að ljúka tekur knattspyrnan við. Meistaraflokkur karla í fótbolta æfir stíft þessar vikurnar og er hugur í leikmönnum og þjálfurum. Yngriflokkastarfið í fótboltanum verður með sama sniði og áður, æft hér í Hólminum og keppt undir merkjum Snæfellsnesssamstarfsins. Fram kemur í skýrlsu stjórnar yngri flokkanna að sparkvöllurinn og fótboltavöllurinn þarfnist báðir viðhalds en vonast er til að farið verði í endurbætur í sumar. Þátttaka í yngri flokka starfi Snæfells/Snæfellsnesssamstarfsins í fótbolta er góð en síðasta sumar fór 4 fl.kvk. til Barcelona og þar á meðal 3 stelpur héðan úr Hólminum. Sumarið endaði með uppskeruhátíð í Ólafsvík.

am/frettir@snaefellingar.is