Daði um nýja þjálfarann

Í 18.tbl. Stykkishólms-Póstsins er fjallað um ráðningu nýja þjálfarans Geof Kotila til Snæfells og rætt lítilega við Daða Sigurþórsson formann stjórnar meistarflokks Snæfells í körfunni.

Það er óhægt að segja að Daði Sigurþórsson hafi átt stórleik í sínu fyrsta verkefni sem formaður stjórnar meistaraflokks Snæfells í körfunni.  Hann og stjórnin hafa nú gengið frá samningi við bandarískan þjálfara sem gert hefur það gott sem þjálfari í Danmörku síðastliðin12 ár. Hann heitir Geof Kotila og mun hefja störf í byrjun júlí.  Hann er 47 ára gamall en hóf þjálfunar-ferilinn aðeins 24 ára þegar hann þjálfaði lið Michigan Tech University  í annarri deild NCAA sem er háskólastigið og var þá yngsti þjálfarinn sem þjálfað hafði á því stigi.  Kotila hefur svo þjálfað í Danmörku frá 1994 og hefur á þeim tíma m.a. unnið 3 meistaratitla, tvisvar var lið hans í öðru sæti, fimm sinnum var lið hans í úrslitum bikarsins og þar af vann hann þrisvar.  Þannig að hér er kominn verðugur arftaki besta þjálfara landsins, Bárðar Eyþórssonar.
Geof er giftur danskri konu og eiga þau tvö ung börn og það er nú ekki slæmt fyrir hana að flytja í Hólminn, þar sem allir tala dönsku, alla vega á sunnudögum.
Það má líka sjá það í dönskum vefmiðlum að Geof leist mjög vel á sig hér þegar hann kom, fallegur bær, íþróttaaðstaðan mjög góð og körfuboltinn aðalíþróttin í bænum.  Þetta sé ný ögrun fyrir hann sem þjálfara, Snæfellingar vilji vinna titla og hann geti verið með í þeirri uppbyggingu sem þar til að ná þeim markmiðum.  Það er líka greinilegt á þessum vefmiðlum að Geof er mjög mikils metinn sem þjálfari í Danmörku og þeir eru hálf hissa á því að hann ætli sér að þjálfa lið í smábæ á eldfjallaeyjunni.
En Stykkishólms-Pósturinn spjallaði við Daða af þessu tilefni.

Til hamingju með þjálfarann,
Takk fyrir
Það sást til ykkar á rúnt um bæinn hér fyrir nokkru. Var það rúnturinn sem réði úrslitum hjá honum?
Já, það er klárt að ferð hans hingað gerði útslagið með ákvörðunina.  Honum líkaði það sem hann sá hér.  Hátt þjónustustig í bænum og hann var hrifinn af íþróttaaðstöðunni. Og við sögðum honum jafnframt frá okkar markmiðum vildum vinna titla hér og svo ef það tækist að fara í Evrópuboltann.  Hann skynjaði einnig mikinn áhuga hér í bænum, hafði reyndar líka lesið grein í flugtímariti sem skrifuð var af Bandaríkjamönnum sem voru hér í bænum þegar Snæfell sigraði Njarðvík svo eftirminnilega eftir að hafa verið 26 stig undir.  Undirtónninn í þeirri grein var að lífið í bænum snerist um körfuboltann, andrúmsloftið í bænum sveiflaðist með genginu í körfuboltanum.  Hann hreifst af því og þykir það spennandi umhverfi að vinna í.
Var hann með fleiri tilboð uppá vasann?
Já, áður en við komum inn í dæmið þá voru allavega þrjú lið á eftir honum.  Við komum inn í þetta á lokasprettinum.  Við komum skyndilega inn það dæmi og eiginlega nöppuðum honum.
Eru einhver skilyrði frá hans hálfu í ráðningarsamningnum? T.d. varðandi leikmenn..
Nei, engin skilyrði.  Hann hitti strákana í liðinu þegar hann kom hér og er leist vel á  hópinn.  Og hann kom ekki með neinar óskir um nýja leikmenn.
Varðandi næsta tímabil.  Nú er KKÍ þingið var eftir að hann var hér og þar var ákveðið að gera engar breytingar varðandi fjölda erlendra leikmanna.  Á að fá þrjá útlendinga eins og síðast eða hver er stefnan?
Það hefur ekkert verið rætt og verður ekki skoðað fyrr en Geof kemur hér og hefur störf.  Hann ræður núna ferðinni í þeim efnum, en hann fylgist mjög vel með hvað er að gerast og við sendum honum jafnframt upplýsingar jafnóðum og við fáum þær varðandi það umhverfi sem hann á eftir að starfa í í vetur.  En hann ræður algerlega ferðinni í leikmannamálunum.
Hann er ekki að koma með danskan leikmann með sér? 
Nei, en það væri ekki slæmt að fá danskan leikmann, þeir hafa ekki verið margir í íslenska körfuboltanum.
Er það rétt að konan hans sé körfuboltakona? 
Já, það er rétt.  Hún stundaði nám og spilaði í Bandaríkjunum og var síðan einnig í danska landsliðinu.
Þannig að þið eruð kannski að slá tvær flugur í einu höggi þarna, komnir með þjálfara fyrir stelpurnar líka? 
Já það gæti vel komið til og vert að skoða þegar þau eru komin hingað.  Þetta gekk nú reyndar svo hratt fyrir sig að það var ekki rætt, en ætti að vera góður möguleiki.
                                                                                                                                                    srb

Daði Sigurþórsson