EuroBasket 2017

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta leikur sinn fyrsta leik á lokamóti EM, EuroBasket 2017, í dag. Ísland er í A-riðli sem leikinn er í Helsinki í Finnlandi. Þetta er annað sinn í röð sem íslenska karlalandsliðinu tekst að komast í lokamótið sem er ótrúlegt afrek. Í fyrstu tilraun tókst ekki að ná sigri en landsliðið lék engu að síður mjög vel þá og vakti athygli fyrir baráttu sína. Þá vakti ekki síður athygli kraftmikill stuðningshópur landsliðsins sem studdi landsliðið mjög vel fram á síðustu mínútu. Íslenska liðið er því reynslunni ríkara í ár, yngri leikmennirnir búnir að bæta sig verulega, Ekki síst þá er íslenska liðið með einn efnilegasta miðherjann í Evrópu, Tryggva Hlinason innan sinna raða. Þannig að Hlynur okkar Bæringsson fær góðan og vel þeginn stuðning í baráttunni í teignum. Stuðningsfólkið ætlar ekki að láta sig vanta og má reikna með þeim í einhverjum þúsundum í Helsinki að hvetja landsliðið, þ.á.m. er fjöldinn allur af Hólmurum. Það verður því mikil stemming á leikjum íslenska liðsins og vonandi ná okkar menn sínu besta fram og að landa sínum fyrsta sigri og jafnvel sigrum á lokamóti EM. Við sem ekki komumst til Finnlands að styðja íslenska landsliðið getum þó fylgst með dýrðinni á Rúv þar verða allir leikirnir sýndir beint.

Dagskrá (ísl.tímasetning):
Fimmtudag 31.ágúst, kl. 13:30 Ísland – Grikkland
laugardag 2.september, kl. 10:45 Ísland – Pólland
Sunnudag 3.september, kl. 10:45 Ísland – Frakkland
Þriðjudag 5.september kl. 10:45 Ísland – Slóvenía
Miðvikdag 6.september kl. 17:45 Ísland – Finnland

am/frettir@snaefellingar.is