Fréttir frá frjálsíþróttadeild Snæfells

Meistaramót Íslands 12 – 14 ára var haldið um síðustu helgi í glæsilegu frjálsíþróttahöllinni í Laugardal, Reykjavík. Frá HSH fóru samtals 16 keppendur, þar af voru 7 héðan úr Hólminum. Farið var af stað á föstudagskvöld á langferðabíl og var það Gunnar Svanlaugsson sem sat við stýrið. Stefnan var tekin á farfuglaheimili í Laugardalnum þar sem að allir frá HSH gistu saman. Mikil tilhlökkun var í krökkunum og gátu þau varla beðið eftir laugardeginum og voru allir vaknaðir og klárir í slaginn fyrir kl. 9 um morguninn. Keppnin hófst kl. 10 og var það lið FH sem stóð fyrir mótinu.
Berglind Gunnarsdóttir reið á vaðið og keppti í hástökki og hún stóð sig með stakri prýði þrátt fyrir að komast ekki í verðlaunasæti. Hún keppti einnig í langstökki þar sem að hún lenti í 7. sæti  en besti árangur hennar var án efa í 60 m spretthlaupi þar sem að hún komst alla leið í úrslit og endaði hún í 4. – 5. sæti.
Páll Grétarsson keppti í langstökki þar sem að hann komst í úrslit þó hann hafi ekki stokkið sig upp á verðlaunapall. Hann keppti líka í 800 m hlaupi þar sem að hann hafnaði í 3. sæti sem verður að teljast glæsilegt þar sem að þetta var hans fyrsta Íslandsmeistaramót. Hrafnhildur Sævarsdóttir var einnig að keppa á sínu fyrsta Íslandsmeistaramóti, hún keppti í kúluvarpi. Hún stóð sig vel en komst þó ekki í úrslit. Hildur Björg Kjartansdóttir keppti í langstökki þar sem að hún stóð sig vel en hún stóð sig enn betur í 60 m spretti þar sem að hún komst í undanúrslit. Ellen Alfa Högnadóttir keppti í langstökki og kúluvarpi og stóð hún sig vel. Björg Guðrún Einarsdóttir keppti í langstökki og hástökki og gekk ágætlega. Hún keppti líka í 60 m spretti þar sem að hún komst alla leið í úrslit og hafnaði í 5. sæti sem er góður árangur, hennar besti árangur var samt í 800 m hlaupi þar sem að hún tryggði sér bronsverðlaun. Frábært það!
Síðast en ekki síst ber að nefna Snjólf Björnsson, sem kom sá og sigraði. Hann byrjaði á því að tryggja sér örugglega Íslandsmeistaratitilinn í kúluvarpi. Þar á eftir hljóp hann sig í úrslit í 60 m spretti og hafnaði í 2. sæti. Síðar um daginn keppti hann í hástökki þar sem að hann gerði sér lítið fyrir og vippaði sér yfir 1, 45 m og tryggði sér sinn annan Íslandsmeistaratitil. En ekki var hann hættur þá því á sunnudeginum tryggði hann sér svo þriðja Íslandsmeistaratitilinn þegar að hann vann langstökk. Glæsilegur árangur hjá stráknum. Þess má geta að Snjólfur var ekki sá eini sem tryggði HSH Íslandsmeistaratitla því að Brynjar Gauti, 14 ára strákur úr Staðarsveit, varð Íslandsmeistari bæði í hástökki og kúluvarpi. Ferðin var í alla staði velheppnuð og voru krakkarnir sér og sínu félagi til sóma og er óhætt að óska þeim öllum til hamingju með árangurinn. Ég vil þakka þeim foreldrum sem komu og hvöttu krakkana til dáða og þeim sem hjálpuðu á einn eða annan hátt við mótið.
Berghildur Pálmadóttir, þjálfari