Sá merki atburður gerðist í fótboltanum hér í bæ að meistaraflokkur Snæfells spilaði sinn fyrsta leik í tíu ár í Íslandsmótinu.  Leikurinn var hér heima síðastliðinn laugardag, gegn Neista frá Hofsósi

Fyrsti leikur Snæfells

Sá merki atburður gerðist í fótboltanum hér í bæ að meistaraflokkur Snæfells spilaði sinn fyrsta leik í tíu ár í Íslandsmótinu.  Leikurinn var hér heima síðastliðinn laugardag, gegn Neista frá Hofsósi

Sá merki atburður gerðist í fótboltanum hér í bæ að meistaraflokkur Snæfells spilaði sinn fyrsta leik í tíu ár í Íslandsmótinu.  Leikurinn var hér heima síðastliðinn laugardag, gegn Neista frá Hofsósi.  Eftir fremur jafna viðureign endaði leikurinn 1-1 en Snæfell var á undan að skora og var þar að verki sjálfur Jón Steinar Kristinsson.  Það segir leikskýrslan allavega á síðu KSÍ.  Steini var nú góður hér í „den“ en að hann sé enn svona ótrúlega góður að hann heldur áfram að skora þó að hann sé löngu hættur, það gera ekki nema snillingar.  Sá sem var gefinn upp sem markaskorari eftir leikinn við Sth.-Póstinn var yngsti leikmaður liðsins, Steinar Már Ragnarsson en hann er hins vegar hvergi að finna í leikskýrslu KSÍ á vefnum.  Það er ekki hægt að segja annað en að þetta sé dularfullt en spurning hvort ekki væri rétt að gefa Ella, bróður Steina séns í næsta leik, hann verður þó allavega á leiknum.
En liðið stóð sig vel gegn Neista og hefðu Snæfellingar með smá heppni getað farið með öll þrjú stigin.  Þjálfarinn, Róbert Stefánsson var nokkuð ánægður þó hann hefði lagt upp með það að vinna leikinn og fá 3 stig en sagði eitt stig þó vera ágætisbyrjun til að byggja á. 
Næsti leikur liðsins er í kvöld kl.20 gegn Skallagrímsmönnum sem koma örugglega grimmir til leiks.  Þeir töpuðu sínum fyrsta leik 5-0 og munu örugglega vilja breyta þeim markamun til hins betra.   Spurning hvort Snæfellingar muni mæta í nýju búningunum?