Miðvikudagur , 19. desember 2018

Hafþór öflugur í sigri Snæfells

Snæfell sigraði Skallagrím í Borgarnesi í kvöld 86-89 og geta þakkað Hafþóri Inga Gunnarssyni þann sigur.  Hafþór var allt í öllu hjá Snæfelli á lokakaflanum, ruslaði upp fráköstunum á báðum vallarhelmingum og sannaði þar heldur betur að viljinn sigrar hæðina.  Skoraði auk þess mjög mikilvægar körfur og ef hann átti ekki lokaskotið þá átti hann stoðsendinguna.  Sóknarfráköstin voru gríðarlega mikilvæg og reyndar tók Hafþór flest sóknarfráköst allra á vellinum og þau öll í lokaleikhlutanum.  Ekki síst þá var skotnýting Hafþórs mjög góð 80% og 100% í vítunum.  Snæfellsliðið nýtti reyndar vítin sín mjög vel og það telur í svo jöfnum leikjum, hittu úr 16 af 19 skotum sem gerir 84%.

Snæfellsliðið var vægast sagt sveiflukennt í sínum leik og má teljast ljónheppið að sleppa frá þessum leik með sigur í venjulegum leiktíma. Mætti kannski segja að það sýndi styrk að koma með sigur úr slíkum leik en réttara væri þó fyrir Snæfellspilta að spyrja sig hvers vegna leikur liðsins er svo sveiflu kenndur.  Eftir að hafa byrjað mjög vel og náð 14 stiga forystu í 2.leikhluta þá var sem leikmenn liðsins héldu að restin væri formsatriði og menn fóru niður á hælana í varnarleiknum og sóknarleikurinn varð stirðari.  Snæfellsliðið er best þegar liðið lætur boltann vinna og sem minnst gert af því að stinga honum niður.  Leikmenn Snæfells eru ekki þeir fljótustu í deildinni en þeir eru flestum liðum hittnari þegar góð skotfæri gefast.  Hraðanum nær því liðið með því að láta boltann ganga og það gerðist of sjaldan í kvöld. Reyndar er breiddin góð hjá Snæfelli og því hægt að keyra vel á mannskapnum og halda þannig góðum dampi líka bæði í sókn og vörn. Of mikið farið í hnoðið og einstaklingsframtakið.

Þrátt fyrir að Snæfellsliðið hafi ekki verið að leika vel í kvöld þá vannst þó sigur og það sá fyrsti í deildinni þetta tímabilið og það er það sem telur á endanum.  Menn áttu góða spretti,  Sveinn var öflugur í upphafi, Jón Ólafur var ekki í sínum besta ham en hélt uppi sínu framlagi með því að vera manna öflugastur í fráköstunum.  Kristján Pétur nýtti sínar mínútur vel og hefði mátt fá þær fleiri í kvöld.  Snæfell mætti með nýjan Bandaríkjamann, Vance Dion Cooksey en hann kom til liðsins í dag og verður því ekki dæmdur af þessum leik.  Hann sýndi þó á köflum fína takta, skoraði 30 stig og var með 6 stolna bolta en átti hinsvegar til að hanga mikið á boltanum.

Skallagrímsmenn voru öllu jafnari í sínum leik og í raun klaufar að ná ekki sigrinum.  Páll Axel var öflugur, þó skotöryggið sé ekki það sama þá er hann alltaf hættulegur og má ekki af honum líta, hann skoraði 18 stig í kvöld og tók 9 fráköst.  Green átti rispur skoraði 24 stig en er greinilega ekki sá duglegasti í vörninni.

En sem sagt sigur hjá Snæfelli í kvöld, þökk sé Hafþóri Inga, sem var svo sannarlega maður leiksins á sínum gamla heimavelli.

Tölfræði leiksins má sjá hér.