Hlupu hringinn í kringum Snæfellsnes

3Y6A0993S.l. fimmtudag, Uppstigningadag, tóku strákarnir í 10. og 11.flokk Snæfells sig til og hlupu áheitahlaup hringinn í kringum Snæfellsnes. Þeir eru á fullum krafti að safna sér fyrir æfinga- og keppnisferð til Spánar í lok júnímánaðar og kláruðu þeir áheitahlaupið hringinn í kringum Snæfellssnesið með stæl fimmtudaginn 29. maí.
Lagt var af stað klukkan 10 um morguninn frá Íþróttamiðstöðinni og þaðan var keyrt að Vatnaleið þar sem drengirnir hófu hlaupið. Þeir hlupu út Grundarfjörð og áfram hringinn. Þeir komu svo tilbaka yfir Vatnaleið og hlupu alla leið inn í Stykkishólm, samtals 180 kílómetra. Strákarnir komu heim um kl.18 og sprettu þeir lokametrana dauðfegnir að þetta þrekvirki væri að baki.
Þeir Gunnar Jónsson og Gísli Pálsson þjálfari sáu um að aðstoða strákana í verkefninu. Þeir gáfu strákunum góða einkunn fyrir að að gefa allt í verkefnið og klára með glæsibrag. Svo var endað í grillveislu heima hjá Guðný Páls og Gunna Jóns.
Hlaupið var skemmtileg fjáröflun sem verður mjög minnistæð fyrir þessa stráka, en bæði strákarnir og foreldrar þakka þeim fjölmörgu einstaklingum og fyrirtækjum sem hétu á strákana kærlega fyrir þeirra stuðning.
Nú styttist óðum í ferðina og munu drengirnir klára tvær fjáraflanir í viðbót áður en haldið verður út til Spánar.