Þriðjudagur , 14. ágúst 2018

Jafntefli í fyrsta leik

Það var eftirvænting í stúkunni á Stykkishólmsvelli í dag þegar Snæfell spilaði sinn fyrsta leik í tíu ár meistaraflokki í knattspyrnu.  Áhorfendur voru þó nokkrir og fjölgaði þegar leið á leikinn og voru margir bjartsýnir á góð úrslit.  Snæfellsliðið mætti liði Neista frá Hofsósi og átti alveg prýðisleik sem þó dugði ekki til meira en jafnteflis 1-1 í jöfnum leik sem hefði þó með smá heppni getað endað með sigri Snæfells.

Það var yngsti maðurinn í liðinu Steinar Már Ragnarsson sem enn leikur með 3.flokki, sem  skoraði mark Snæfells um miðbik fyrri hálfleiks.  Því miður náðu Snæfellsmenn ekki að halda forystunni inn í hálfleikinn því Neistamenn potuðu einu rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Snæfellsliðið var svo heldur betra liðið í seinni hálfleik en náði ekki að nýta þau færi sem gáfust og niðurstaðan því jafntefli.
  Róbert Árni Stefánsson þjálfari Snæfells var þokkalega ánægður með leikinn og að fá eitt stig þó vissulega hefðu þeir leikið til sigurs og hann hefði viljað fá öll stigin.    Það hefði verið margt gott í leiknum og jafnteflið væri þó ágætis byrjun sem hægt væri að byggja á fyrir næsta leik. 

Áður en leikurinn hófst voru þrír áhorfendur sem mikið vit hafa á fótbolta fengin til að spá um úrslit leiksins.  Það voru þau Elli Kristins, Guffý og Rabbi Rafns.  Rabbi reið á vaðið og spáði 3-1 fyrir Snæfell og einu fótbroti og einu rauðu spjaldi, greinilega viss um að þetta yrði með sama laginu og þegar hann var í boltanum. Ellert spáði 2-0 fyrir Snæfell og Guffý spáði að Snæfell myndi hafa þetta en hversu mörg mörkin yrðu færi eftir því hver skyti á markið.  En leikurinn fór sem sagt 1-1 og greinilegt að spekingarnir eru örlítið ryðgaðir svona í fyrsta leik, en trúin á Snæfell klikkar ekki.  Rabbi var e.t.v. næstur því að eitthvað rættist af hans spádómi því frændi hans í Snæfellsliðinu var ansi nálægt því að fá rauða spjaldið.

Lið Snæfells í fyrsta leik, ekki búnir að fá nýju búningana.
Guffý,Ellert og Rabbi voru bjartsýn á gott gengi