Meistaraflokkur kvenna í Snæfelli hefur fengið liðsstyrk, eftir því sem næst verður komist þá hefur stjórn deildarinnar samið við bandarískan leikmann Kristen Green um að leika með liðinu eftir áramótin.  Þar er einkum horft til þeirra leikja sem skipta lykilmáli um að halda liðinu í deildinni.

Kristen Green til Snæfells

Meistaraflokkur kvenna í Snæfelli hefur fengið liðsstyrk, eftir því sem næst verður komist þá hefur stjórn deildarinnar samið við bandarískan leikmann Kristen Green um að leika með liðinu eftir áramótin.  Þar er einkum horft til þeirra leikja sem skipta lykilmáli um að halda liðinu í deildinni.

Ef marka má það sem finna má á netinu þá er sitthvað spunnið í Kristen Green.  Hún er t.d. ein þriggja kvenna sem hafa náð því að leika í ABA deildinni í Bandaríkjunum (American Basketball Association) en það er í raun karladeild.  Þar lék hún reyndar bara tvo leiki í janúar nú í ár með The Orange County Gladiators og náði þar þeim árangri að skora 25 stig í seinni leiknum sem var 136-104 sigurleikur.  Í þessum tveimur leikjum hitti hún úr 9 af 15 skotum sínum og þar af voru 7 þriggja stiga skot.  Kristen yfirgaf Gladiators til að reyna að komast að hjá LA Sparks í WNBA sem er NBA deild kvenna Ameríkunni.  En það lukkaðist greinilega ekki en hún er greinilega sterkur leikmaður 5,9 á hæð og leikstjórnandi og seig í fráköstunum líka þannig að hún virðist vera sá leikmaður sem Snæfell þarf.  En sem fyrr þá eru upplýsingar á neti eitt og leikform annað þegar á staðinn er komið, þannig að það verður bara að bíða og sjá.  En sé hún þessi sterki leikmaður sem hún virðist vera þá vaknar spurningin hversvegna hún velur að koma í hið gjaldþrota land ,,terroristanna" Ísland af öllum stöðum.  Jú, sagan segir að hún eigi rætur til Íslands.  Römm er sú taug.  Það á væntanlega eftir að koma í ljós hvort eitthvað er hæft í þeirri sögu þegar þar að kemur.