Líflegt í íþróttunum

Eins og fram kom í síðasta tölublaði þá fagnar Ungmennafélagið Snæfell 80 ára afmæli þann 23. október n.k. Í stuttu spjalli við Hjörleif Kristinn Hjörleifsson (Kidda) formann Snæfells verður afmælisins minnst á Norðurljósahátíðinni sem haldin verður 25.-28. október. Eitt og annað er í undirbúningi að sögn Kidda í tilefni afmælisins og er afmælisnefnd að störfum. Kiddi er einnig formaður HSH sem um helgina býður upp á þjálfaranámskeið á Snæfellsnesi og tekur þátt í fjölmenningarhátíð í Frystiklefanum á Rifi 20. október. Þar mun HSH kynna starfsemi sína og færa gestum bækling um starfsemina og fjölnota taupoka sem einnig verður dreift til grunnskólabarna á Snæfellsnesi í kjölfarið.

Framboð æfinga í íþróttagreinum hjá Snæfelli er með mesta móti þessi misserin en æft er í körfu, fótbolta, fimleikum og frjálsum íþróttum. Gaman að segja frá því að barna- og unglingastarfið hefur farið vel af stað og fjöldi barna sem stunda æfingar. Vöxtur hefur verið í fjölda fótboltakrakka en í dag eru 57 börn sem þær sækja og er það næstum tvöföldun frá því í fyrra.

Körfuboltinn er að rúlla af stað og fyrsti heimaleikur stelpnanna í Domino’s deildinni n.k. laugardag kl. 15 – Allir á völlinn!