Litið yfir árið 2015

04.06.2015 - Sjómannadagsmót 2015c(31)

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Við ætlum aðeins að líta um öxl og fara yfir það helsta sem gerðist á árinu 2015 hjá Skotfélagi Snæfellsness. Veturinn var eins og svo oft áður notaður í að huga að vorverkunum og framkvæmdum á æfingasvæðinu. Þrátt fyrir mikinn snjó og kulda var æfingasvæðið ótrúlega mikið notað yfir köldustu mánuðina og voru menn greinilega ekki að setja kuldann fyrir sig, heldur klæddu menn sig bara upp og grófu upp riffilborðin ef þess þurfti.
Um leið og snjórinn var farinn var haldinn árlegur tiltektardagur á æfingasvæðinu þar sem lauslegt rusl var fjarlægt og svæðið snyrt. Þá voru einnig settir upp nýir garðbekkir við félagshúsnæðið og leirdúfukastvélarnar voru yfirfarnar fyrir sumarið.

Skotíþróttamaður HSH
Þann 16. maí var Unnsteinn Guðmundsson útnefndur skotíþróttamaður HSH annað árið í röð, en Unnsteinn hafði verið útnefndur Skotíþróttamaður Grundarfjarðar í lok árs 2014. Unnsteinn hafði sigrað flest þau mót sem hann tók þátt í það ár með töluverðum yfirburðum auk þess sem hann hafði verið mjög virkur í starfi félagsins.

Aðalfundur
Aðalfundur var haldinn í félagshúsnæði félagsins í Hrafnkelsstaðabotni fimmtudaginn 28. maí. Fundurinn var vel sóttur og byrjað var á því að fara yfir hefðbundin aðalfundarstörf. Ákveðið var að félagsgjaldið yrði áfram óbreytt, en það hefur verið 5.000 kr. á ári síðastliðin 18 ár.
Því næst fór fram kosning formanns og stjórnar og var sama stjórn kosin til áframhaldandi starfa og var stjórnin því óbreytt fyrir næsta starfsár. Stjórninni til stuðnings var í fyrsta skipti skipuð mótanefnd sem ætlað er það hlutverk að skipuleggja og sjá um mót á vegum félagsins.
Í mótanefnd voru kosin þau Aðalheiður Lára Guðmundsdóttir, Eymar Eyjólfsson og Þorsteinn Björgvinsson. Undir liðnum önnur mál var ýmislegt rætt og sett var upp framkvæmdaáætlun fyrir sumarið, en markmið félagsins er að geta boðið upp á sem allra besta aðstöðu til skotæfinga með öryggi allra í fyrirrúmi. Fyrsta verkefnið sem sett var á dagskrá var að endurbyggja turninn og markið og klæða að utan, en stærsta verkefnið var undirbúningsvinna fyrir byggingu skothúss við riffilborðin. Fundinum var svo slitið kl. 22:50 en þá var að sjálfsögðu skotið aðeins áður en haldið var heim á leið.

Sjómannadagsmót
Árlegt Sjómannadagsmót Skotgrundar fór fram fimmtudaginn fyrir sjómannadag í blíðskaparveðri á æfingasvæði félagsins. Þetta er í þriðja skipti sem mótið er haldið og var met þátttaka að þessu sinni. Landsliðið sigraði naumlega í ár, en aðeins hálft stig skildi liðin af. Unnsteinn Guðmundsson náði bestum árangri einstaklinga, Eymar Eyjólfsson varð í öðru sæti og Gústav Alex Gústavsson í því þriðja. Skipuleggjendur mótsins eru mjög ánægðir með hversu vel tókst til og stefnt er að því að gera enn meira úr mótinu á næsta ári.

Vel heppnað riffilmót
Árlegt Riffilmót Skotgrundar fór fram þann 17. júní. Mætingin var mjög góð og ágætis veður. Keppt var í tveimur flokkum og í minni flokkinum náði Guðmundur Andri bestum árangri, Pétur varð í öðru sæti
og Gunnar í því þriðja. Í stærri flokkinum náði Gunnar bestum árangri, Guðmundur Andri varð í öðru sæti og Steini Gun í þriðja sæti. Þorgrímur Kolbeinsson listamaður frá Grundarfirði smíðaði verðlaunagripina.

Skotvopnanámskeið
Skotvopnanámskeið sem Skotfélag Snæfellsness stóð fyrir í samstarfi við Umhverfisstofnun var haldið dagana 23.-25. júní. Einar Guðmann frá Umhverfisstofnun sá um bóknámið og skrifleg próf, en Skotfélag Snæfellsness sá um verklega kennslu. Í verklega hlutanum var farið yfir helstu þætti og eiginleika
skotvopna, auk þess sem nemendur fengu að spreyta sig á hinum ýmsu skotvopnum.

Vinnudagar
Í byrjun júlí var hafist handa við að endurbyggja turninn og markið á æfingasvæði félagsins. Húsin voru byggð árið 1988 og var farið að sjá töluvert á þeim. Voru þau endurbyggð alveg frá grunni og klædd að utan. Gengu endurbæturnar mjög vel og fjöldi félagsmanna mættu til að leggja hönd á plóg. Þá var einnig tengt vatn í félagsnúsnæðið á árinu og erum við því komin með rennandi vatn í salernið og í handlaugarnar. Mótið fór þannig fram að hver og einn skotmaður átti að skjóta 10 útskorna refi í mismunandi fjarlægðum úr liggjandi stöðu. Aftan á hvert dýr var teiknaðafmarkað svæði, sem dugði til að “fella dýrið” og fengu keppendur stig fyrir að hitta innan þess svæðis. Ekki voru gefin stig fyrir að hitta í skott eða fætur. Leikar fóru þannig að Finnur Steingrímsson frá Skotfélagi Akureyrar sigraði mótið með 128 stig, Hilmir Valsson frá Skotfélagi Vesturlands (Borgarnesi) varð í öðru sæti með 126 stig og Gunnar Ásgeirsson fra Skotfélagi Snæfellsness varð í þriðja sæti einnig með 126 stig, en þar sem Hilmir var með einu skoti meira í miðjuna fékk hann silfrið. Verðlaunagripina smíðaði Þorgrímur Kolbeinsson listamaður frá Grundarfirði og Hjálmar í Hlað gaf sigurvegara mótsins inneignarkort í versluninni Hlað að verðmæti 10.000 kr. Strax að móti loknu var farið að ræða um að halda annað mót á næsta ári enda var þetta frábær skemmtun og góð æfing. Sérstaklega gaman var að fá heimsókn frá strákunum frá Akureyri og Borgarnesi.

Nýir rifflar, borð, stólar o.fl.
Félagið festi kaup á ýmsum varningi á nýliðnu ári og ber helst að nefna tvo 22.cal riffla sem félagið keypti. Rifflarnir verða notaðir við verklega kennslu og til útláns til félagsmanna sem ekki eiga skotvopn en hafa áhuga á að taka þátt í mótum og æfa sig. Fyrir hafði félagið keypt eina haglabyssu, en félagið vill að allir sem vilja geti tekið þátt í starfsemi félagsins. Vegna fjölgunar í félaginu var ákveðið að kaupa nýja stóla og borð í félagshúsnæðið svo að það nýtist betur. Keyptir voru fleiri stólar og borð til viðbótar við það sem keypt var í fyrra til að rúma alla í sæti þegar haldnir eru viðburðir á vegum félagsins. Þessi fjölgun í félaginu er svo sannarlega ánægjuleg þróun og ef heldur áfram sem horfir þá þurfum við að byggja nýtt og stærra félagshúsnæði. En það er þó ekki á dagskrá alveg strax, því næsta verkefni er að byggja skothús við riffilborðin og er stefnt að því að byrja á því í sumar.

Skothús
Unnið er að því að ljúka við hönnun og teikningar að skothúsi sem Skotgrund er með áform um byggja við riffilbrautina, takist að fjármagna verkefnið. Um er að ræða 75m2 hús með 6 inniborðum auk rými fyrir mótsstjórn og dómara. Húsið á að byggja við hlið þeirra 6 riffilborða sem eru til staðar nú þegar, en þá getur félagið boðið upp á 6 útiborð og 6 inniborð. Fyrir framan húsið verður svo 46,5 m2 tyrft svæði þar sem hægt verður að skjóta úr liggjandi stöðu, m.a. með hreindýraskotpróf í huga. Félagið stefnir á að steypa upp sökkla og plötu og reisa húsið á þessu ári og ljúka við frágangsvinnu og taka húsið formlega í notkun á afmælisári félagsins árið 2017, en þá verður félagið 30 ára. Vonandi mun þessi áætlun ganga eftir, en allt fer þetta eftir því hvernig gengur að fjármagna verkefnið. Flest önnur skotfélög hérlendis hafa komið upp skothúsi og myndi það bæta aðstöðu skotmanna hér á svæðinu til muna ef okkur tækist að reisa slíkt hús og lengja þar með þann tíma sem hægt er að stunda skotæfingar.

Skotíþróttamaður ársins
Í desember var Birgir Guðmundsson útnefndur skotíþróttamaður Grundarfjarðar árið 2015 og veitti hann viðurkenningunni móttöku á árlegum Aðventu- og fjölskyldudegi í samkomuhúsi Grundarfjarðar. Þar kom m.a. fram að: “Birgir hefur tekið mjög virkan þátt í starfi Skotgrundar, stundað mjög reglulegar skotæfingar og verið öðrum skotmönnum fyrirmynd hvað það varðar. Birgir hefur tekið virkan þátt í mótum sem haldin hafa verið á vegum félagsins og átt þátt í skipulagningu þeirra. Þá hefur Birgir sinnt óeigingjörnu starfi fyrir félagið sem leiðbeinandi á skotvopnanámskeiðum og verið prófdómari í verklegum skotprófum fyrir hreindýraveiðimenn, sem Skotgrund hefur boðið upp á”.

Stjórn Skotgrund / Bæjarblaðið Jökull