Lokahóf KKÍ – Bárður og Magni bestir

Bárður Eyþórsson, fyrrverandi þjálfari Snæfells, var kjörinn besti þjálfarinn í Iceland-Expressdeild karla í vetur og Ingvaldur Magni Hafsteinsson besti varnarmaðurinn, á lokahófi KKÍ í gærkvöldi.

Bárður Eyþórsson, fyrrverandi þjálfari Snæfells, var kjörinn besti þjálfarinn í Iceland-Expressdeild karla í vetur og Ingvaldur Magni Hafsteinsson besti varnarmaðurinn, á lokahófi KKÍ í gærkvöldi.
    Það val kemur ekki á óvart, Bárður náði frábærum árangri í vetur með nánast nýtt lið.  Hann var má segja í verstu stöðunni í haust af þjálfurum deildarinnar enda höfðu kollegar hans og leikmenn hinna liðanna ekki mikla trú á Snæfellsliðinu í vetur.  Var með nánast nýtt lið og mjög lítinn hóp en Bárður sýndi það og sannaði að hann er orðinn einn besti þjálfari landsins í körfuboltanum með því að skila Snæfellsliðinu í 8 liða úrslitin og verðskuldar því svo sannarlega titilinn ,,besti þjálfarinn“ fyrir þetta tímabil.  Það er því vel við hæfi að óska Bárði til hamingju og ekki síður ÍR-ingum sem hafa nú náð til sín besta þjálfara landsins um þessar mundir.
    Að sama skapi óskum við Magna til hamingju en valið á honum sem besta varnarmanninum kemur heldur ekki á óvart þó það hefði heldur ekki verið óeðlilegt að hann hefði verið kjörinn besti leikmaðurinn í deildinni.  En það er nú svo að þeir leikmenn sem ná alla leið í úrslitaleikina eiga kannski meiri möguleika á þeim titli en hinir sem eru löngu búnir að ljúka sínum leikjum. Bara vonandi að Snæfellingar hafi passað Magna vel á lokahófinu þannig að talsmenn annarra liða hafi verið að rugla í honum með gylliboðum. 
    Þá áttu Snæfellingar tvo leikmenn í úrvalsliðum Iceland Express-deilda karla og kvenna en það voru þau Ingvaldur Magni og Hildur Sigurðardóttir en hún spilaði með Grindavík í vetur. 
     Einnig má geta þess að Hólmarar áttu fleiri fulltrúa á KKÍ þinginu sem fengu viðurkenningu en það voru þau Hannes Ágúst Jóhannesson og Elínborg Guðnadóttir.  Þau voru heiðruð með gullmerki KKÍ fyrir áralöng störf sín fyrir Körfuknattleikssamband Íslands

Bárður og Magni klyfjaðir verðlaunagripum.  Ljósm.Lýður