Nýársmót HSH

Nýársmót HSH var haldið sunnudaginn 15. janúar í íþróttahúsinu í Ólafsvík. Mótið átti að vera jólamót en hafði verið frestað vegna veðurs.

Mótið var skipulagt af frjálsíþróttaráði HSH og var fyrir alla aldurshópa barna og ungmenna, en alls tóku þátt 52 keppendur, alls staðar af Snfæfellsnesinu. Yngsti þátttakandinn var á fjórða ári og þau elstu á 16. ári.

Keppt var í 35 m hlaupi, langstökki með og án atrennu og kúluvarpi. Mótið fór vel fram og voru margir keppendur að fara á sitt fyrsta mót, foreldrar voru duglegir að aðstoða við framkvæmd mótsins; mæla og skrá niður árangurinn. frjalsar

Frjálsar íþróttir eru nú æfðar í Stykkishólmi, Grundarfirði og Snæfellsbæ.

Allir keppendur fengu þátttökuverðlaun, íþróttapoka merktan HSH og húfu merkta HSH þau sem ekki áttu slíka húfu fyrir. Auka keppnisgrein var „sokkakeppni“ en keppt var um skrautlegustu – frumlegustu og glaðlegustu sokka keppenda. Auk þess völdu yngstu krakkarnir skemmtilegustu sokkana hjá foreldrum – og vakti það mikla gleði.

Stefnt er að héraðsmóti HSH í vor og verður það haldið í Stykkishólmi.