Nýr hópur landsliðs

Búið er að tilkynna landsliðshóp kvenna í körfubolta sem kemur saman til æfinga sunnudaginn 13. nóvember. Í frétt frá karfan.is segir að miklar breytingar séu frá síðustu landsleikjum á liðinu. Einungis átta eru nú í liðinu af sextán manna hóp sem spilaði gegn Portúgal í febrúar. Fjórar nýjar eru í hópnum, þ.a. þrjár úr Keflavík. Nýju leikmennirnir eru ungir og segir í tilkynningu frá KKÍ að verið sé að horfa til framtíðar með því að fá unga leikmenn til að spila með þeim reynslumeiri.

Landsliðið mun leika sína síðustu leiki í undankeppni fyrir EuroBasket kvenna sem haldið er á næsta ári. Leikirnir eru báðir í nóvember. Þann 19. er útileikur gegn Slóvakíu og heimaleikur gegn Portúgal 23. nóvember.

Sem fyrr er nokkuð um Snæfellsstúlkur í hópnum. Það eru systurnar Berglind og Gunnhildur Gunnarsdætur og Pálína María Gunnlaugsdóttir. Leiða má líkur að því að þær teljist til þeirra reynslumeiri í liðinu.