Snæfell gefur ekkert eftir

52527cb133dee.jpgSnæfellsstelpurnar unnu Hauka í kvöld 72-75 í hörkuleik eins og vænta mátti í Hafnarfirðinum.  Enn og aftur sýndu Snæfellsstelpurnar stáltaugar og seiglu og höluðu sigrinum inn þó Haukar hafi saumað að þeim undir lokin.  Snæfell sem lék án Chynna Brown í kvöld eins og í fyrsta leiknum, var lengst af með undirtökin eftir góðan fyrri hálfleik sem Snæfell vann 26-37 og þann mun voru Haukar að reyna að vinna upp allan seinni hálfleikinn.  Haukum tókst að jafna þegar tæpar 2 mínútur voru eftir 70-70 og áttu möguleika á að komast yfir þegar Lele Hardy fékk tvö vítaskot þegar aðeins 50sek voru eftir.  Lele brást hinsvegar bogalistin í báðum skotunum og Hildur Björg svaraði hinumegin með tveimur stigum.  Lele jafnaði á ný og einungis 17 sek eftir en Hildur Sigurðardóttir skoraði svo þegar 4 sek voru eftir 72-74 og bætti við stigi að auki úr víti 72-75 og einungis 4 sek eftir sem Haukar nýttu ekki.  Snæfell sigraði því 72-75 og er nú komið í 2-0 í rimmunni gegn Haukum og geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri í hér heima á sunnudaginn kemur.
Þó Ingi hafi ekki keyrt á nema sjö leikmönnum í kvöld þá var Snæfell enn og aftur með fjóra leikmenn í rúmum tíu stigum.  En enn og aftur þá er það liðsheildin sem skapar svona sigur og það þarf sterka vörn til að halda jafnsterkum leikmanni og Lele Hardy í 23 stigum og öðrum undir tíu stigum með einni undantekningu.  Guðrún Gróa var með 13 og 4 fráköst en hún var firnasterk í byrjun í stigaskorinu en meginvinnan í kvöld í varnarvinnunni þar sem hún var í aðalhlutverki.  Helga Hjördís var með 15 stig og 7 fráköst, Hildur Björg 16 stig þar af 8 í fjórða leikhlutanum,10 fráköst og 5 stoðsendingar,  Hildur Sigurðardóttir var í miklu stuði í kvöld og fór hamförum ásamt nöfnu sinni í fjórðaleikhlutanum þegar hún skoraði tíu stig og tryggði sigurinn í lokin.  Hildur skoraði alls 30 stig í kvöld, tók 4 fráköst og var með 4 stoðsendingar.  Það er hægt að segja að Bjarni Magnússon þjálfari Hauka, hafi í orðsins fyllstu merkingu „verið með böggum Hildar“ í fjórða leikhlutanum þrátt fyrir að Haukarnir hafi þá farið að sækja í sig veðrið því Haukunum gekk á sama tíma illa að ráða við Hildi Björgu og Hildi Sig.  Þær stöllur hrukku þá heldur betur í gírinn og skoruðu öll 18 stig Snæfells í fjórða leikhlutanum.
Eins og áður sagði þá er Snæfell nú komið í 2-0 og spennandi leikur framundan á sunnudaginn og spurning hvort Ingi  Þór haldi Chynna Brown ekki bara á bekknum.  En því er þó ekki neitað að það er betra að hafa hana inná vellinum náist að koma henni í lag fyrir sunnudaginn.  Hvað sem verður þá hafa Snæfellsstelpurnar verið án hennar í síðustu þremur leikjum og unnið þá alla þannig að haldi þær fókus og spennustiginu réttu þá geta þær klárað rimmuna á sunnudaginn og þá er nú skyldumæting í Fjárhúsið.

Tölfræði leiksins hér.

srb