Snæfell – Skallagrímur í kvöld

Snæfell mætir liði Skallagríms kl.19:15 í kvöld í Fjárhúsinu.  Liðin hafa bæði lent í mannahremmingum í vetur þó leikmannaraunir Snæfells séu smá vandamál við hliðina á hremmingum Skallagrímsmanna.  En þeir fengu þó einn öflugan úr herbúðum Snæfells og það er Sveinn Davíðsson sem hefur heldur betur skilað sínu til þessa og verður gaman að sjá hvort karlinn verður ekki í stuði á sínu heimaparketi.

Staða liðanna er ólik í deildinni en bæði eiga þau þó það sameiginlegt að hafa leikið vel í fyrsta leik eftir áramót.  Snæfell vann öruggan sigur á Tindastóli 88-95 og tryggði sér þar með 4.sætið í deildinni.   Skallagrímur vann sinn fyrsta sigur í deildinni 8.janúar þegar liðið vann Breiðablik sannfærandi 73-58.  
    Snæfell er sem stendur í 4.sætinu með 14 stig, tveimur stigum á eftir Keflavík sem fær KR í heimsókn í kvöld.  Þannig að það er ekki langt í Keflavík sem reyndar vann fyrri viðureign liðanna hér heima í nóvember 62-67
     Eftir leikinn í kvöld býður stjórn meistaraflokks stuðningsmönnum til fundar í íþróttahúsinu með liðinu þar sem þjálfararnir Hlynur Bæringsson og Sigurður Þorvaldsson fara yfir stöðuna og farið í leikmannamálin og þá sérstaklega fjármögnun væntanslegs leikmanns til liðsins Lucious Wagner.  Töluvert hefur þegar safnast til að fjármagna þann leikmann en örlítið vantar þó enn til að klára dæmið.
     Það er því nauðsynlegt fyrir alla velunnara liðsins að skella sér í Fjárhúsið í kvöld og hvetja liðið til sigurs og ræða svo málin og baráttuna framundan.  Svo má ekki gleyma því að leikurinn er jafnframt Iceland Expressleikur þ.e. dregið verður úr seldum aðgöngumiðum og fær eigandi þess miða utanlandsferð í boði Iceland Express.  Bónus verður einnig með hið sívinsæla Bónusskot þar sem heppnum áhorfanda býðst til að reyna sig við Bónusskotið og nái hann að hitta úr því fær hann vöruúttekt í Bónus að launum.