Snæfell gerði sér lítið fyrir og sigraði KR-inga á útivelli í kvöld 71-68.   

Snæfell tók fyrstu rimmuna gegn KR.

Snæfell gerði sér lítið fyrir og sigraði KR-inga á útivelli í kvöld 71-68.   

Það var gríðarlega skemmtileg stemming í Stykkishólmsbíói sem hýsir nú félagsmiðstöðina X-ið.  Þar var búið að koma fyrir góðum skjávarpa sem varpaði leiknum upp á heljarins tjald.  Hreinlega frábær mynd- og hljóðgæði og ekki hægt að komast nær stemmingunni í leiknum sjálfum nema hreinlega vera á leiknum.  Þær fá stóran + þær stöllur Guffí og Inga Dalla og ekki síður krakkarnir sem sáu um hvatningahrópin þannig að það var sem maður væri staddur á sjálfum leiknum á köflum. 
    En aftur að leiknum, Snæfellingar lögðu grunninn að sigrinum í fyrsta leikhluta sem þeir unnu með sjö stigum og komu greinilega betur stemmdir en KR-ingar í leikinn.  Þau voru þó ófá mistökin í leiknum og klárt mál að Snæfellingar eiga mikið inni fyrir heimaleikinn á laugardaginn.  KR-ingar geta e.t.v. sagt slíkt hið sama en þeir virtust engan vegin tilbúnir í þennan slag og það var aðeins Melvin Scott sem sá um skorunina hjá þeim fyrstu mínúturnar, hreinlega raðaði þristunum.  Raunar ótrúlegt hvað Snæfellingar létu hann leika lausum hala framan af leiknum.  Ef til vill hefur Bárður talið að Scott myndi ekki halda þetta út og það reyndist rétt því það slökknaði alveg á honum í restina.  Þrátt fyrir að Snæfellingunum voru oft á tíðum mislagðar hendur í sókninni  þá leiddu þeir  þó leikinn allan tímann og stýrðu leiknum þannig að KR-ingar virtust nánast aldrei líklegir til að vinna þennan leik þó munurinn væri aldrei mikill.  En það verður þó að játast að það fór um mannskapinn í smekkfullum salnum í Stykkishólmsbíói þegar KR-ingar komust yfir í fjórða leikhluta með tveimur þristum frá Brynjari Björnssyni og virtust líklegir til að stela sigrinum.  En Snæfellingar sýndu þá þann karakter sem þeir eru að verða þekktir fyrir og komu til baka og unnu verðskuldað 71-68.  Tölfræðin yfir leikinn er hér.
     Snæfellingar eru því komnir með óskastöðu fyrir leikinn hér heima á laugardaginn og mikilvægt að slá nú ekki af heldur bæta í og reyna að bæta það sem aflaga fór í fyrri leiknum og þá á þetta ekki að vera spurning.  Snæfellingarnir eru hreinlega með betra lið og því ekkert annað í stöðunni en að klára þetta á laugardaginn.

Hvað sagði Hreinn Þorkellsson eftir leikinn?
Hreinn var einn fjölmargra stuðningsmanna Snæfells sem fylgdust með leiknum í Stykkishólmsbíói.  Sth.-Pósturinn sveif á hann og spurði álits á leiknum.

Hvernig fannst þér leikurinn?  Var hann eftir væntingum?
Ja ég er bara stóránægður með sigurinn.  Mér fannst þeir þó alltof köflóttir, tapa alltof mörgum boltum og á köflum heldur mikið ráðleysi í sókninni.  Það er eins og einbeitingin tapist stundum í sókninni, það er það sem þarf að bæta, að tapa ekki svona mörgum boltum.

Þeir voru kannski bara heppnir að sleppa með sigur
Já miðað við færin sem þeir gáfu á sér.  En  þetta var hörkuleikur og við klárum þetta á laugardaginn.

En eiga strákarnir ekki helling inni, fyrir næsta leik, miðað við leikinn í kvöld?
 
Já við vorum ekkert að spila á fullum styrk.  Braca kemur að vísu sterkur inn í stigaskoruninni en vörnin var ekki nógu góð stundum.  Scott var að fá alltof mörg frí skot í byrjun, þeir áttu að dekka hann miklu harða.  Og Brynjar hann fékk þarna tvö frí skot og það er ekki spurning ef hann fær það þá setur hann þau niður.

Hvað myndurðu helst laga fyrir leikinn á laugardaginn?
Það þarf ákveðnari vörn allan tímann, í 40 mínútur.  Það á ekki að vera neitt mál að laga það.  Og svo verða menn að einbeita sér betur í sókninni.  Skógarferðirnar eru bara of margar.