Sparkvöllurinn vígður

Það var mikið líf í kringum sparkvöllinn við formlega vígslu hans föstudaginn 5.maí.  Völlurinn hefur verið í notkun í þó nokkurn tíma en ekki reyndist unnt að vígja hann formlega fyrr.  Það var Eyjólfur Sverrisson sem mættur var fyrir hönd KSÍ en hann hefur leitt þetta verkefni hjá sambandinu.  

     Eyjólfur var einnig mættur með nokkra fótbolta frá UEFA og styrktaraðilum átaksins sem eru Eimskip,Olís, KB-banki og Vís.  Fótboltana afhenti hann Snæfelli og Grunnskólanum.Það skemmdi ekki fyrir að það var blíðskaparveður þannig að fjölmargir lögðu leið sína að sparkvellinum við Íþróttamiðstöðina.  Einhverjar konur voru mættar því þær héldu að Eyjólfur myndi mæta í stuttbuxunum í blíðunni, lengi lokka lærin.  Eyjólfur greinilega ekki tapað aðdráttaraflinu þó hann sé hættur í toppboltanum.  
    Þetta sparkvallaátak Knattspyrnusambandsins hlýtur að vera með best heppnuðu aðgerðum til að efla áhuga á ákveðinni íþróttagrein.  Spurning hvort Körfuknattleikssambandið ætti að taka þetta átak til fyrirmyndar og standa að átaki sem byggðist á uppsetningu körfu eða karfa á litlum upphituðum og malbikuðum körfuboltavelli. 
    Sparkvallaátakið miðaðist við 40 velli í byrjun en eftirspurnin varð miklu meiri en reiknað var með og fór það svo að þegar umsóknum um vellina var lokað þá voru þeir orðnir 111.  Nú þegar hafa um 65 vellir verið byggðir og verður restin kláruð árið 2007.  

Eyjólfur afhendir Ásmundi boltana en hann tók við þeim fyrir hönd Grunnskólans og Snæfells.
Fullorðna fólkið fylgdist með úr öruggri fjarlægð