Rafael Figuerola Perz fagnar fyrsta marki leiksins.

Spennuleikur sem endaði 1-1

Það var hörð barátta í leik Snæfells UDN gegn Berserkjum þegar liðin mættust á Stykkishólmsvelli í kvöld. Fyrsta mark leiksins skoraði Rafael Figuerola Perz á 18 mínútu fyrir Snæfell og uppskar hann mikil fagnaðarlæti í stúkunni sem var þétt setin. Á þrítugustu og fimmtu mínútu jafnaði Kristinn Jens Bjartmarsson leikinn fyrir Berserki og var staðan þá orðin 1-1, sem var niðurstaða leiksins. Kristinn Jens á ættir hingað í Hólminn eins og meðfylgjandi myndir sína.

Fyrir leikinn þakkaði bæjarstjóri, Jakob Björgvin Jakobsson stjórn knattspyrnudeildar Snæfells vel unnin störf og færði þeim þakklætisvott frá íbúum Stykkishólms. Að því loknu kallaði Jakob upp Sigurþór Hjörleifsson írþóttakappa í áratugi til að klippa á borða og vígja sæti stúkunnar sem þar með voru formlega tekin í notkun. Þakkaði Jakob framlag Sigurþórs til íþrótta undir merkjum Snæfells og HSH í gegnum tíðina en Sigurþór stundaði kast- og stökkgreinar og nær metaskrá hans allt aftur til ársins 1961. Það var því vel við hæfi að fá Sigurþór í verkið enda stórbætir framtakið alla aðstöðu við íþróttamannvirki bæjarins.