Stjörnuleikur

Meistaraflokkur karla fær til sín feiknasterkt lið í kvöld þegar Stjarnan mætir til leiks. Snæfell er nú í neðsta sæti Domino’s deildarinnar en Stjarnan taplausir í öðru sæti eftir fjórar umferðir.

Fremstir meðal jafningja hjá Stjörnumönnum verða þeir Hlynur Bæringsson og Justin Shouse en þeir eru einmitt gamalkunnir Snæfellsmenn. Hlynur segir í samtali við blaðamann að það verði eflaust undarlegt að koma og spila á sínum gamla heimavelli og hann hlakki mikið til. Hann segir að hann hafi ekki spilað gegn Snæfelli síðan árið 2002, þá með Skallagrím.

Hlynur samdi við Stjörnuna í haust eftir dvöl í Svíþjóð þar sem hann spilaði með Sundsvall Dragons. Spurður út í heimkomuna segir hann það vera mikil viðbrigði. Hraðinn í íslensku deildinni sé annar og spilunarlega hafi mikið breyst og tengir hann það við færri erlenda leikmenn en áður. Einnig tekur hann eftir því að karfan sé meira áberandi í umræðunni en áður, umfjöllun um leiki sé meiri og fleiri sýni íþróttinni áhuga. Telur hann upp gott gengi landsliðsins á góðum tíma sem ástæðu auk meiri og ýtarlegri fjölmiðlaumfjöllunar. Líklegast hafi fjölmiðlamenn loks séð fegurðina í leiknum. Að lokum tekur hann fram að hann muni gefa sig allan í leikinn, annað væri bara svik við liðið, mótherja og áhorfendur.

Á heimasíðu Snæfells er tekið fram að „um leið og okkur hlakkar til að fá þessa heiðursmenn í heimsókn til okkar, viljum við auðvitað jafnframt gera þeim eins erfitt fyrir og mögulegt er.” Hvetur körfuknattleiksdeild Snæfells svo alla til að mæta á völlinn og styðja sína menn til dáða því stuðningurinn fleytir mönnum langt.