Víkingur fær 14,3 milljónir í EM-framlag

VíkÓl-Logo-Anton2KSÍ greiðir 453 milljónir króna til aðildarfélaga KSÍ vegna EM í Frakklandi. Fjármunum sem veitt er til aðildarfélaga skal eingöngu varið til knattspyrnutengdra verkefna félaganna, segir í tilkynningu frá KSÍ. Meðal félaga sem fá framlag frá KSÍ er Víkingur Ó sem fær 14.297.000.

Á ársþingi KSÍ sem fram fór 13. febrúar sl. var tilkynnt að 300 m. kr. yrði úthlutað á árinu til aðildarfélaga KSÍ sem sérstakt EM-framlag, eða um 25% af greiðslunni frá UEFA. Í samræmi við auknar greiðslur UEFA til KSÍ vegna EM hefur stjórn KSÍ ákveðið að hækka framlagið til aðildarfélaga sambandsins í 453 m. kr., sem er um 25% af heildargreiðslu UEFA. Stjórn KSÍ hefur einnig ákveðið hvernig greiðslurnar skiptast á milli aðildarfélaga.

Framlag til aðildarfélaga byggist fyrst og fremst á stöðu meistaraflokks karla og kvenna í deildum sl. 3 ár, 2014, 2015 og 2016 eða yfir það tímabil sem Evrópumótið í knattspyrnu náði yfir.

Þeir fjármunir sem nú skila sér til knattspyrnufélaga á Íslandi skipta aðildarfélögin verulegu máli. Stjórn KSÍ væntir þess að þeim verði ráðstafað til verkefna sem skili bættu starfi til lengri tíma.

Bæjarblaðið Jökull