Bongótónlistin bjarta

Það var heldur betur góð stemning í Stykkishólmskirkju s.l. mánudag þegar bongókvartett Tómasar R. Einarssonar hélt lokatónleika sína í tónleikaferð um landið. Tónleikarnir voru vel sóttir og þótt það geti verið vandasamt að flytja svona tónlist í svona ómandi rými eins og kirkjan er, þá virkaði hún vel þetta kvöld. Tómas sagði sögur á milli laga og rifjaði m.a. upp þegar hann var í skóla hér í Stykkishólmi á árum áður. Að sögn Tómasar var það alveg sérstaklega ánægjulegt að spila í Hólminum þetta kvöld. Með Tómasi í för voru Bogomil Font, Sigtryggur Baldursson, Sigríður Thorlacius og Ómar Guðjónsson.