Kímnilög

2df25f8e00000578-3296906-later_almost_a_decade_after_the_war_shepard_s_illustrations_for_-a-144_1446215203334Tónlistarmennirnir Michael Jón Clarke barítónsöngvari og tónskáld og Daníel Þorsteinsson píanóleikari eru væntanlegir hingað í Stykkishólm á næstunni frá Akureyri þar sem þeir starfa og búa. Michael hefur samið 10 grínlög við ljóð Þórarins Eldjárns undir yfirskriftinni Snigill og flygill. Auk þessara laga verða flutt lög eftir H. Fraser-Simson við ljóð A.A.Milne um Bangsímon. Samhliða tónlistarflutningnum verður myndum Sigrúnar Eldjárn við ljóð Þórarins varpað upp á tjald og myndskreytingum Ernest Shepherds af Bangsímon við lögin um Bangsímon. Lög Michaels voru frumflutt árið 2014 í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri fyrir fullu húsi. Í undirbúningi er útgáfa geisladisks með efninu.

Michael lærði tónlist í Bandaríkjunum og Englandi. Hann hefur verið strengja- og söngkennari við Tónlistarskólann á Akureyri í hátt á fimmta áratug. Michael hefur haldið fjölda einsöngstónleika, sungið einsöngshlutverk með kórum, tekið þátt í óperum og söngleikjum, og stjórnað fjölda kóra og hljómsveita. Undanfarin ár hefur hann snúið sér í auknum mæli að tónsmíðum og nýlega gaf hann út geisladiskinn Passíusálmar ásamt Eyþóri Inga Jónssyni. Hann samdi tónverkið Aldamótakvæði sem flutt var á afmæli Akureyrarkaupstaðar 2012. Fjögur orgelverk hans voru hljóðrituð í flutningi Láru Bryndísar Eggertsdóttur undir heitinu „Ég heyrði þytinn frá vængjum þeirra“. Með Guðnýju Einarsdóttur samdi hann tónlistina í „Lítil saga úr orgelhúsi“ sem Kirkjuhúsið gaf út, og eru bæði þessi verk á dagskrá alþjóðlegrar orgelmessu sem haldin verður í Gautaborg í haust.

Daníel Þorsteinsson píanóleikari lauk framhaldsprófi frá Sweelinck tónlistarháskólanum í Amsterdam árið 1993. Hann hefur komið fram víða um heim í einleik og samleik, meðal annars með CAPUT hópnum víða um heim og píanóleik hans má heyra á fjölda útgefinna hljómdiska. Daníel hefur samið og útsett tónlist fyrir leikhús, söngvara og kóra og á geisladiski kammerkórsins Hymnodiu eru fjögur jólalög eftir hann.

Daníel hefur fjórum sinnum hlotið starfslaun frá Menntamálaráðuneytinu og árið 2000 var hann útnefndur bæjarlistamaður á Akureyri. Hann býr nú í Eyjafjarðarsveit, kennir við Tónlistarskólann á Akureyri, starfar sem organisti og kórstjóri við Laugalandsprestakall í Eyjafirði og er stjórnandi Kvennakórs Akureyrar.

Tímasetning tónleika þeirra félaga sem er fyrir „börn á öllum aldri“ verður auglýst í Stykkishólms-Póstinum í næstu viku og á Facebook síðu Listvinafélags Stykkishólmskirkju sem heldur tónleikana.

frettir@snaefellingar.is