Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Ljósmyndasýning í Norska húsinu

IMG_1383Fjárbændurnir er heitið á ljósmyndasýningu sem opnar í Norska húsinu n.k. laugardag. Viðfangsefnið er samfélag frístundabænda sem stunda búfjárrækt í jaðri bæjarins. Myndirnar voru teknar árið 2015 að vori til í miðjum sauðburði þegar vaktin stendur allan sólarhringinn og mikið um að vera. Ljósmyndarinn er Guðrún Svava Guðmundsdóttir og er hún uppalin í Stykkishólmi. Faðir hennar hefur verið með kindur síðan 2002 og því eru ferðir upp í fjárhús hluti af því að heimsækja foreldrana. Guðrún lagði stund á mannfræði við Háskóla Íslands og lauk mastersprófi með áherslu á ljósmyndir árið 2011. Guðrún hefur haft áhuga á ljósmyndun frá unglingsaldri og hefur tekið myndir frá því mamma hennar keypti sér Canon myndavél, en þá var Guðrún fimmtán ára. Mamma hennar endaði á því að gefa henni vélina í tvítugsafmælisgjöf. Ljósmyndaröðin Fjárbændurnir er að hluta til mannfræðileg og er tilraun til að fanga þetta samfélag sem er Guðrúnu svo kært.

frettir@snaefellingar.is