Saga Breiðfirðinga I

20160326_150115Sverrir Jakobsson prófessor við miðaldasögu í HÍ heimsótti Norska húsið laugardaginn fyrir páska þar sem hann kynnti nýútkomna bók sína um sögu Breiðfirðinga, fyrsta bindi. Nær fyrsta bindið frá landnámi til plágunnar miklu. Sverrir hefur s.l. 10 ár stundað rannsóknir á þessu viðfangsefni og unnið jafnt í frumheimildum og nýrra efni við ritun sögunnar.

Þegar Ari fróði settist við skriftir á fyrri hluta 12. aldar beindist áhugi hans sérstaklega að Breið-firðingum, hans eigin forfeðrum, hlutdeild þeirra í landnáminu og forystu í málefnum héraðsins. Síðan þá hafa Breiðfirðingar alltaf verið í lykilhlutverki í sagnaritun Íslendinga.

Breiðafjörður hefur sérstöðu meðal héraða á Íslandi hvað varðar stjórnmál, menningu og atvinnuhætti. Þar hefur sjórinn verið þjóðbraut fremur en farartálmi, samnefnari og tenging fremur en sundrandi afl.

Í þessari bók ræður sú sýn að byggðir við fjörðinn myndi heild. Hér segir frá höfðingjum og lærdómsmönnum eins og Ara en einnig bændum, konum, húskörlum og ambáttum, pólitískri sögu þeirra, lífsháttum og afkomu. Útkoman er saga sem aldrei hefur verið sögð áður.

Stefnir í þrjú bindi af sögunni en ekki liggur fyrir hvenær verkinu lýkur. Vel var mætt á fyrirlestur Sverris í Norska húsinu.