Þriðjudagur , 19. febrúar 2019

Sumarsýning í Norska húsinu

Sunnudaginn 3. júní opnaði sumarsýning Norska hússins – BSH. Gluggi til fortíðar, gersemar nútíðar og arfur framtíðar: Endurgerð Norska hússins.
Norska húsið í Stykkishólmi var byggt árið 1832 af Árna Thorlacius kaupmanni og útgerðarmanni og á sér langa og merkilega sögu. Árið 1970 ákvað Sýslunefnd Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu að festa kaup á húsinu með það fyrir augum að færa það til upprunalegs horfs og koma þar upp byggðasafni sýslunnar. Þetta mun hafa verið gert af frumkvæði byggðarsafnsnefndar. Ljóst var að mikið verk væri fyrir höndum og þetta sama ár hafði nefndin samband við Þór Magnússon þáverandi þjóðminjavörð og óskaði eftir leiðbeinslu og liðsinnis. Í framhaldi fól hann Herði Ágústssyni listmálara að hafa umsjón með verkinu. Á sýningunni er meðal annars fjallað um framkvæmdirnar á húsinu sem bræðurnir Lárus- og Jón Svanur Pétursynir sáu um og hvernig vinnan við endurgerð þess varð að nokkurs konar fyrirmynd fyrir önnur hús er gera skyldi upp í framtíðinni. Hafa verður í huga að á þessum árum var húsvernd fremur nýtt hugtak í hugum fólks.
Sýningin var unnin af undirritaðri ásamt Valgerði Óskarsdóttur þjóðfræðing og Ólafi Ingibergssyni sem sá um grafíska hönnun á sýningarspjöldum. Viljum við koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem aðstoðuðu við sýninguna á einn eða annan hátt.
Sýningin stendur fram á haust og er safnið opið alla daga frá kl. 10 – 17.
Hjördís Pálsdóttir, safnstjóri Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla.