Indverskir tónlistarmenn í Stykkishólmskirkju

S.l. sunnudag var ýmislegt um að vera í Stykkishólmi. Það í sjálfu sér er ekki óvanalegt og ekki var það heldur óvanalegt að tónleikar væru í Stykkishólmskirkju, þvert á móti. Hinsvegar var efniskrá tónleikanna og uppruni flytjenda óvenjulegur. Tónlistarmennirnir komu alla leið frá Indlandi til að halda tónleika í Stykkishólmi, Íslandi. Það var val þeirra að leika í Stykkishólmi frekar en Reykjavík á tónleikaferð sinni um Evrópu. Öll voru þau yfir sig hrifin og sögðu margoft í kynningum að hingað vildu þau koma í fjölskyldufrí, þau hefðu meira að segja fengið að sjá Norðurljós s.l. laugardag.
Tónlistarflutningur var framúrskarandi og mátti heyra tónlist úr Bollywood kvikmyndum, indverska popp- og klassíska tónlist. Flutt voru óútgefin verk auk þess sem sígild verk eftir Chopin og Bach voru leikin. En það var stemningin í kirkjunni sem var óvenjuleg og undir töfrandi tónlist Meistara Subramaniam á fiðluna og ásláttarleikara á hina sérstæðu indversku handtrommu fór hugurinn víða. Mjög ánægjulegur hvalreki á fjörur okkar hér í Stykkishólmi og ógleymanleg stund. am
[nggallery id=42]