Kór Stykkishólmskirkju í Hörpu

[nggallery id=38]

Það var fríður hópur kórfélaga úr kór Stykkishólmskirkju sem fór suður um helgina til að taka þátt í 75 ára afmælishátíð Landssambands blandaðra kóra í tónlistarhúsinu Hörpu á laugardag og sunnudag. Æfingar hófust eldsnemma báða dagana og segja má að kórsöngur hafi hljómað í nánast hverju horni í Hörpunni þessa daga. Tæplega 1000 kórsöngvarar sungu og sungu í smærri hópum en líka saman og er alveg óhætt að fullyrða að tilfinningin var einstök þegar allur hópurinn flutti í Eldborgarsalnum kórperlur íslenskra tónbókmennta að ekki sé talað um íslenska þjóðsönginn fyrir fjórraddaðan kór, það var kraftur í þessum flutningi – og fengu margir gæsahúð á meðan. Kórar stóðu á sviði Eldborgar, á svölum og gólfi og tóku áhorfendur undir í þessum verkum. Einnig voru flutt ný verk og annað undir stjórn höfundarins Robert Sund sem kom frá Svíþjóð og svo verk eftir „okkar mann“ Hreiðar Inga Þorsteinsson sem var frumflutt og samið fyrir þetta tækifæri.
Kór Stykkishólmskirkju kom fram á laugardeginum á tveimur stöðum í húsinu með sína efnisskrá og tókst flutningum með miklum ágætum. Landssamband blandaðra kóra LBK er litlu eldri en Kór Stykkishólmskirkju sem fagnar 70 ára afmæli um þessar mundir. En kórinn var jafnframt eini kórinn af Vesturlandi sem tók þátt að þessu sinni en þrátt fyrir það voru skemmtilegir endurfundir við gamla félaga, vini og fjölskyldu. Unnið var með kórstjórum í fremstu röð og víst að kórfélagar tóku með sér dýrmæta reynslu og lærdóm heim í hérað til að vinna með áfram. IMG_2382 IMG_2400

IMG_2387