Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Minningartónleikar um Hadda

[nggallery id=51]

Það voru sérlega vel heppnaðir tónleikarnir s.l. sunnudag sem haldnir voru á Hótel Stykkishólmi í minningu Hafsteins Sigurðssonar tónlistarkennara við tónlistarskóla Stykkishólms. Tæplega þriggja tíma dagskrá var í boði og samstóð efnisskráin af fjölbreyttri tónlist. Mjög vel var mætt á tónleikana og gerðu tónleikagestir góðan róm að þeim.
Það er mikilvægt í samfélagi eins og Stykkishólmi að njóta krafta fólks á borð við Hadda. Eftir hann liggur mikið starf á sviði tónlistarinnar og félagslífsins í Hólminum í gegnum tíðina. Ellert Kristinsson var kynnir á tónleikunum og gerði sögu Hadda góð skil m.a. með vísnasöng en eftir Hadda liggur tölvert af gamanvísum. Nokkar kynslóðir flytjenda; fyrrum nemendur, samkennarar, samferðafólk og fjölskylda stigu á svið og var mikil breidd í tónlistinni. Á svona stundu kemur einnig skýrt í ljós hversu miklu og stóru hlutverki tónlistarskólinn þjónar. Sjá mátti og heyra núverandi nemendur skólans taka í ýmis hljóðfæri og flytja tónlist af ýmsu tagi. Einnig stigu á stokk fyrrum nemendur eins og hún Bjarndís Emilsdóttir, eða Dísa á Hárstofunni, sem tók upp þráðinn í flautunámi s.l. haust eftir margra ára hlé, Símon Karl Sigurðarson sem var í klarinettnámi hjá Hadda 2005-2010 og stundar nú framhaldsnám í FÍH í Reykjavík og ekki síður Kristjón Daðason sem s.l. sumar lauk mastersgráðu í trompet- og tónlistarnámi í Danmörku. Það er með góðu móti hægt að draga þá ályktun að grunnurinn sé góður.
Í tilefni minningartónleikanna var stofnaður minningarsjóður um Hadda sem hefur þann tilgang að að styrkja ungt tónlistarfólk til tónlistarnáms, hljóðfærakaupa, þátttöku í tónlistarnámskeiðum eða annars tengdu tónlist. Reikningsnúmer: 0309-22-344 – Kennitala: 650269-3579 Fleiri myndir eru á snaefellingar.is am