Nótan 2014

Laugardaginn 15. febrúar s.l. var dagur tónlistarskólanna á Íslandi.  Af því tilefni  var efnt til tónleika  nemenda Tónlistarskóla Stykkishólms í Stykkishólmskirkju þann dag..  Á Íslandi starfa 90 tónlistarskólar og hjá þeim starfa um 900 kennarar og nemendur eru um 15.000 talsins.    Uppskeruhátíð tónlistarskólanna, Nótan, er samvinnuverkefni Félags tónlistarskólakennara, Félags íslenskra hljómlistaramanna og Samtaka tónlistarskólastjóra.  Hver skóli sendir  fulltrúa á sameignlega landshlutatónleika þar sem valin eru atriði til flutnings á hátíðartónleikum undir lok marsmánaðar ár hvert.  Á tónleikunum s.l. laugardag var kosið um atriði sem fara munu frá Stykkishólmi á Vesturlands-Nótuna í Borgarnesi 8. mars n.k. Langflest atkvæði tónleikagesta fékk stúlknakór tónlistarskólans undir stjórn Hólmfríðar Friðjónsdóttur og munu þær fara í Borgarnes ásamt fleiri tónlistaratriðum tónlistarskólans sem skýrast mun um síðar.