10 ár

Frá fundi með Snæfelli árið 2008.

Hvar varst þú á þessum árstíma fyrir 10 árum?

Sjálf var ég stödd á fréttastofu Útvarpsins á fundi með fréttastjóra og allt var á yfirsnúningi á deildinni, því stórviðburðir voru í aðsigi. Fundurinn varð stuttur og ég fór aftur vestur í Hólm. Við tóku verkefnin heima og útgáfa Stykkishólms-Póstsins. Lífið í Stykkishólmi einkenndist af miklum sprengikrafti á þessum tíma. Frumkvöðlar voru allmargir og bæjaryfirvöld héldu ró sinni yfir stöðunni. Sé litið til baka þá var verið að stofna Eldfjallasafn hér í Hólminum og mikill hugur í mönnum þar. Blússandi gangur var hjá Helluskeifum sem hafði bætt við sig vélakosti. Þjónustuhús á tjaldsvæði fór í útboð. Jökull bjór fór í framleiðslu og skúta Skipavíkur fór á flot. Bláskelin var að komast á skrið og Valentínus setti allt í gang í harðfiskframleiðslu. Þetta var haustið sem síldin veiddist hér í túnfætinum hjá okkur í Stykkishólmi og leikskólinn fór að taka inn börn frá 12 mánaða aldri. Það var líka verið að safna fyrir kirkjuorgeli og Leir 7 kom sér fyrir á Hamraendum. Rokkóperan Jesús Guð Dýrlingur var frumsýnd á Hótel Stykkishólmi. Verkefnastaða Skipavíkur var ágæt og parhús voru í byggingu í Móholtinu. Erlend lán sem Stykkishólmsbær var með voru greidd m.a. með sölu á hitaveitunnar til Orkuveitunnar í maí 2008. Skipulagsverðlaun voru veitt Stykkishólmsbæ fyrir miðbæjarskipulag. Erlendum leikmönnum og þjálfara karlaliðs Snæfells var sagt upp störfum vegna gríðarlegra gengisbreytinga sem kom illa við rekstur meistaraflokksins því samningar voru í evrum. Sameiningu heilbrigðisstofnana á Vesturlandi var frestað um hálft ár vegna ástandsins í þjóðfélaginu. Þetta er það sem hæst ber á þessum tíma fyrir 10 árum í Stykkishólms-Póstinum. Hvar stöndum við þá nú?

am/frettir@snaefellingar.is