18 hjúkrunarrými í Stykkishólmi komin á áætlun

Velferðarráðuneytið tilkynnti á þriðjudag áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma til ársins 2022. Í áætlun heilbrigðisráðherra liggur fyrir að 155 hjúkrunarými verði byggð til viðbótar þeim 313 sem fyrir eru á framkvæmdastigi. Þannig verða 468 byggð eða endurgerð fram til 2022. Inni í áætlun þessari er reiknað með að endurgera 18 hjúkrunarrými í Stykkishólmi.

Áætlaður kostnaður við byggingu 155 rýma eru tæpir fimm milljarðar króna. Þannig má áætla að kostnaður í verkefninu hér í Stykkishólmi verði um 600 milljónir króna. Miðað er við það í áætluninni að framlag hlutaðeigandi sveitarfélags í framkvæmdakostnaðinum verði 15% á móti 85% kostnaði ríkissjóðs. Í Facebókarfærslu Stykkishólmsbæjar um þessa ákvörðun á þriðjudag kemur fram að með með henni verði tryggt að sameining Dvalarheimilisins og Sjúkrahússins verði að veruleika.
Ennfremur segir að tryggðar hafi verið fjárveitingar úr ríkissjóði sem nema 200 milljónum króna á þessu ári.

Sem kunnugt er þá hófst vinna við þetta verkefni árið 2011 og loks virðist sjá fyrir endann á því nú 6 árum síðar. Fyrir liggur að semja þarf milli Fjármálaráðuneytis, Velferðarráðuneytisins, Heilbrigðisstofnunar Vesturlands og Stykkishólmsbæjar um framkvæmdina og kostnaðarskiptingu hennar.

Að sögn bæjarstjóra standa væntingar til þess að verkefnið geti farið af stað á þessu ári.

am