Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Búinn að horfa á þessi fjöll svo lengi

Greinahöfundur er annar frá vinstri

Laugardaginn 12. ágúst stóð Ferðafélag Íslands fyrir göngu yfir Ljósufjöll. Lagt var af stað frá Kleifárvöllum á sunnanverðu Snæfellsnesi og lauk göngunni vestan við Kársstaði í Álftafirði. Gengnir voru tæpir 20 km og tók gangan um 10 klst.
Hópurinn, 26 manns, hittist við afleggjarann á Kleifárvöllum um hálfníu um morguninn og vorum við sjö sem komum úr Stykkishólmi auk fararstjórans Ragnars Antoníussen. Veðrið var einstaklega gott, sól og góður hiti. Eins og oft er í svona göngum var farið rólega af stað og var stemningin góð. Fyrsta klukkutímann eða svo var gengið í þúfum, grasi og berjalyngi. Margir nýttu tækifærið og gæddu sér á bláberjum sem voru orðin ansi þroskuð og safarík. Landslagið varð svo grýttara þegar ofar dró og eftir um tveggja tíma göngu í sól og blíðu fór að þykkna upp og gerði haglél um stutta stund sem síðar breyttist í rigningu. Þá var ekki annað í stöðunni fyrir göngugarpa en að klæða sig í hlífðarfatnað og halda ótrauð áfram.

Stefnan var tekin á Miðtind sem er hæsti tindur Ljósufjalla (1064 metrar). Hann er vestastur í röð þriggja tinda sem eru áberandi fyrir landslag Ljósufjalla en hinir tveir kallast Bleikur (1021 m) og Gráni (1001 m). Gangan sóttist vel og vorum við komin upp að Miðtindi eftir um fimm og hálfa klukkustunda göngu. Þar gafst fólki kostur á að ganga upp á sjálfan tindinn sem flestir gerðu. Veðurguðirnir voru greinilega á okkar bandi því það létti til á uppgöngunni og því fengum við nánast óhindrað útsýni til allra átta uppi á toppi. Nokkrir gengu einnig upp á Botna-Skyrtunnu (988 m) sem er rétt norðan af Miðtindi en þá var farið að þykkna upp og því létu flestir sér nægja að spara kraftana fyrir gönguna niður í Álftafjörð. Áfram var haldið og gengið niður í Soldeyjardal þar sem mannskætt flugslys varð árið 1986. Eftir smá stopp þar var haldið áfram niður í Álftafjörð þar sem við vorum komin um klukkan sjö.

Ferðin var mjög skemmtileg enda landslag fjallanna stórbrotið og litadýrð mikill.

Þorsteinn Eyþórsson