Afmæli leikskólans

Nú líður að 60 ára afmæli Leikskólans í Stykkishólmi en það er þann 7. október.
Það var í október 1957 sem St. Fransiskussystur opnuðu leikskóla hér í Stykkishólmi. Í ljósi sögunnar er þetta mjög merkilegt þar sem á þessum tíma eða árið 1960 voru 12 leikskólar í Reykjavík og enn liðu 20 ár þar til stofnaðir voru leikskólar í nágrannasveitarfélögum okkar.

Þær systurnar voru því mjög framfarasinnaðar og þessi viðbót við heimilisuppeldi vel þegin því árið 1963 voru um 60 börn í leikskólanum.
St. Fransiskussystur höfðu víðtæk áhrif á bæjarbraginn í Stykkishólmi og létu margt gott af sér leiða.

Okkar markmið frá upphafi var að láta þessa hátíð snúast um börnin og þeirra menningu og sköpun. Þannig varð til barnamenningarhátíð í tengslum við afmælishátíð leikskólans. Þannig mótast dagskráin af börnum sem eru hér í leikskólanum núna en einnig af öllum þeim börnum sem hafa verið nemendur hér í leikskólanum í öll þessi ár. Auk þessa minnumst við stofnenda leikskólans, St. Franciskussystra af þessu tilefni.
Í vikunni á undan vinna elstu börnin í leikskólanum ásamt 1. bekk í grunnskólanum að listasmiðjum í umsjón kennara og listamanna hér í Stykkishólmi.
Einnig verður unnið hér í leikskólanum að skapandi verkefnum með öllum börnunum. Afrakstur þessar vinnu verður svo sýndur á afmælishátíðinni.
Menningarmót með börnunum verður haldið í leikskólanum á föstudeginum með þremur elstu árgöngunum hér í leikskólanum.

Kristín R. Vilhjálmsdóttir hugmyndafræðingur menningarmóta hefur staðið að undirbúningi þess verkefnis með starfsfólki leikskólans frá því í vor en verkefnið gengur út á varpa ljósi á styrkleika og fjölbreytta menningarheima þátttakenda.

Öll eigum við okkar persónulegu menningu sem endurspeglast í því hver við erum, hvað viljum kynna fyrir öðrum og styrkja með því móti sjálfsmynd okkar. Þannig munu börnin kynna sína menningu ekki endilega þjóðarmenningu eða upprunamenningu einstaklinga heldur er markmiðið að hver og einn varpi ljósi á það sem skiptir hann mestu máli eða vekur áhuga hans. Á hverju Menningarmóti eru allir í hópnum bæði þátttakendur og áhorfendur. Þeir sem vilja fræðast meira um menningarmót geta kynnt sér málið hér: http://tungumalatorg.is/menningarmot/

Í tengslum við hátíðina höfum við verið að safna saman myndum og tekið á móti myndum frá bæjarbúum og fleirum til að sýna á hátíðinni en þær eru einnig að tínast smátt og smátt inn á Facebook síðu hátíðarinnar: Leikskólinn í Stykkishólmi 60 ára, þar eru einnig allar frekari upplýsingar um viðburði tengda hátíðinni auk auglýsingar hér í blaðinu.

Nemendur í upplýsingatækni í grunnskólanum ætla að gera verkefni með okkur sem felst í því að þau taka viðtöl við fyrrverandi nemendur leikskólans, frá upphafi, biðja þau um að deila með okkur einhverju skemmtilegu frá leikskólaárum sínum. Það verður svo sýnt á afmælishátíðinni.

Búið er að bjóða Forseta Íslands og forsetafrú að koma á afmælishátíðina, þau hafa þegið boðið og ætla að vera með ávarp á afmælishátíðinni.

Við erum í samstarfi við marga hér í bæ og allir mjög jákvæðir að taka þátt og hlýjan í garð leikskólans er greinileg og fyrir það þökkum við.

 
Með kveðju frá leikskólanum í Stykkishólmi, Sigrún Þórsteinsdóttir