Læknir til starfa á háls- og bakdeild

Eins og greint hefur verið frá á þessum vettvangi þá hófst starfsemi háls- og bakdeildar sjúkrahússins í Stykkishólmi aftur eftir sumarleyfi 28. ágúst s.l. og tekur við sjúklingum í endurhæfingu sem fyrr. Faglegur ábyrgðaraðili deildarinnar verður Hrefna Frímannsdóttir. Hún ásamt Hafdísi Bjarnadóttur samskiptafulltrúa í Stykkishólmi vinna nú að endurskoðun á skipulagi og stefnumótun deildarinnar.

Eins og kunnugt er lét Jósep Ó. Blöndal yfirlæknir af störfum við deildina í sumar og hefur samkomulag náðst við Bjarna Valtýsson svæfingalækni um að taka að sér læknisþjónustu við sjúklinga háls- og bakdeildarinnar tímabundið, en hann hefur mikla reynslu í verkjameðferð. Útfærsla læknisþjónustunnar er í mótun og er ráðgert að Bjarni muni sinna sprautumeðferð á svæðinu vikulega og vera fagteymi til ráðgjafar eftir þörfum auk þess að taka að sér fræðslu fyrir sjúklinga deildarinnar. Heilsugæslulæknar sjá um inn- og útskriftir á háls- og bakdeild fyrst um sinn.

Bjarni hefur starfað um langt skeið erlendis, nú síðast í Sádi-Arabíu, hefur sérhæft sig m.a. meðferð langvinnra verkja um árabil. Viðtal við Bjarna birtist í læknablaðinu 2016 um störf hans í Saudi-Arabíu