50 ára vígsluafmæli Ólafsvíkurkirkju

Ólafsvíkurkirkja fagnaði 50 ára vígsluafmæli sínu á síðasta sunnudag þann 19. nóvember.
Margt hefur verið gert á afmælisárinu til að fagna en á síðasta sunnudag var hátíðarmessa í kirkjunni.
Í messunni predikaði frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. Þrír af fyrrum sóknarprestum Ólafsvíkurkirkju þeir séra Friðrik Hjartar, séra Óskar Hafsteinn Óskarsson og séra Magnús Magnússon þjónuðu fyrir altari ásamt núverandi sóknarpresti séra Óskari Inga Ingasyni, Guðríður Þórðardóttir var meðhjálpari.
Jazztríó skipað þeim Jóni Rafnssyni, Kjartani Valdimarssyni og Þór Breiðfjörð sá um tónlist og söng ásamt Elenu Makeeva, organista, Veronicu Osterhammer, kórstjóra og einsöngvara, kirkjukór Ólafsvíkur og kór Ingjaldshólskirkju.
Að messu lokinni var boðið í afmæliskaffi í félagsheimilinu Klifi, þar var hátíðardagskrá og veitingar bornar fram. Þar kom Barnaog skólakór Snæfellsbæjar fram og söng nokkur lög luku þau sínum söng með því að Kirkjukór Ólafsvíkur söng með þeim eitt lag. Sturla Böðvarsson sagði frá uppbyggingu kirkjunnar.
Valentina Kay og Evgeny Makeev spiluðu á píanó og klarinett ljúfa tónlist undir borðum. Kirkjunni bárust margar góðar gjafir sem afhentar voru í kaffinu.
Bæjarstjórn Snæfellsbæjar gaf kirkjunni í sumar framkvæmdir við bílaplan kirkjunnar og malbikun á því. Fjölskylda Kristjönu Þ. Tómasdóttur og Víglunds Jónssonar gáfu til minningar um hjónin 15 áletraðar Biblíur, sem meðal annar eru notaðar við ritningarlestur og fermingarfræðslu.
Anna Margrét Þorsteinsdóttir gaf kirkjunni minningarskjöld um séra Guðmund Einarsson, prófast, en hann þjónaði Ólafsvík frá 1908 til 1923 og minningarbók en hún er barnabarn hans. Félagar úr Rótarýklúbb Ólafsvíkur gáfu kirkjunni skjávarpa, sem notaður er í kirkjunni við guðsþjónustur og barnastarf. Söluskáli Ó.K. gaf kirkjunni peningagjöf að upphæð 50.000 krónur. Hinrik Pálsson gaf kirkjunni peningagjöf að upphæð 50.000 krónur til minningar um fósturforeldra sína, Ágústu Sigurðardóttur og Kristján Þórðarson, stöðvarstjóra, sem nota á til að skipta um ljós í forkirkjunni. Guðmunda Wiium og Ólína Björk Kristinsdóttir gáfu kirkjunni 10 kransastanda og hafa þeir þegar verið teknir í notkun. Lionsklúbburinn Rán gaf kirkjunni nýtt veisluborð í safnaðarheimilið. Kvenfélag Ólafsvíkur færði kirkjunni peningagjöf að upphæð 500.000, þar af gjafabréf fyrir 100 sálmabókum. Ingjaldshólssöfnuður færði kirkjunni peningagjöf að upphæð 80.000 og Sæunn R. Sveinsdóttir og Ásgeir G. Jóhannesson, fyrrum sóknarnefndarformaður færðu kirkjunni 300.000 krónur til viðhalds krikjunnar, er gjöfin til minningar um foreldra Sæunnar þau Þórheiði Einarsdóttur og Svein Kristján Stefán Einarsson.

þa