Áramót

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri

Gleðilegt nýtt ár ágætu lesendur Jökuls. Eins og hefð er orðin, mun ég í nokkrum orðum fara yfir nýliðið ár hér í Snæfellsbæ.

Árið 2017 var mikið framkvæmdaár í Snæfellsbæ. Margar götur bæjarins fengu andlitslyftingu þegar þær voru malbikaðar. Göngustígurinn á milli Rifs og Ólafsvíkur var malbikaður í samstarfi við Vegagerðina og lagt var malbik á göngustíginn milli Hellissands og Rifs hvoru tveggja til mikilla bóta fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Auk þess ákvað bæjarstjórn að malbika bílastæðin við kirkjuna í Ólafsvík í tilefni af 50 ára afmæli kirkjunnar, einnig var bílastæðið við Sjómannagarðinn á Hellissandi malbikað sem er til mikilla bóta.

Stærsta framkvæmd ársins var/er lagning ljósleiðara í dreifbýli Snæfellsbæjar og gert er ráð fyrir að sú framkvæmd muni kosta um 140 m.kr., geri ég ráð fyrir að þeim framkvæmdum verði að fullu lokið í byrjun árs 2018 ef veður leyfir. Búið er að klára lagningu ljósleiðarans í Staðarsveit og Breiðuvík og nú þegar eru nokkrir aðilar búnir að fá tengingu sem er mjög ánægjulegt. Malarif, Hellnar og Arnarstapi eru næstir í því að fá tengingu og vona ég að ef veður leyfir að það klárist í janúar 2018 og þá verður farið beint í framkvæmdir í Fróðárhreppnum en búið er að leggja stofnstrenginn þar. Þetta verkefni fékk styrk úr Fjarskiptasjóði og nú í desember fór sveitarfélagið í útboð um sölu á kerfinu og varð Míla hlutskörpust þar. Verkefnið er mikið framfaramál fyrir okkur sem samfélag og með því munu opnast fjölmörg tækifæri og án efa mun það styrkja byggðina í heild sinni.

Keyptar voru fimm íbúðir til að mæta aukinni þörf á leiguhúsnæði í sveitarfélaginu en sú ánægjulega þróun var á árinu að mikil sala var á húsnæði og hefur í langan tíma ekki verið meiri sem aftur á móti minkaði framboð á leiguhúsnæði.

Hafist var handa við að setja gervigras á Ólafsvíkurvöll nú í haust og verður þeim framkvæmdum lokið í lok maí 2018. Ég geri mér grein fyrir að ekki eru allir á eitt sáttir með þessa framkvæmd en ég held að ég geti fullyrt það að með henni mun aðstaða til knattspyrnuiðkunar í Snæfellsbæ stórbatna og allir flokkar munu geta nýtt sér þessa framkvæmd að mestu yfir sumarmánuðina. Svo sjáum við til hvernig þetta mun kom út yfir vetrartímann en að sjálfsögðu mun veðurfarið stjórna því. Klárt er að æfingar og keppnisaðstaða frá apríl fram í nóvember mun gjörbreytast og veðurfar mun ekki hindra keppni eða æfingar eins og verið hefur.

Miklar framkvæmdir voru á vegum hafnarinnar og þær stærstu í Rifi er elsti stálþils viðlegukanturinn var endurnýjaður með því að setja nýtt stálþil og hafnar voru framkvæmdir við þekjuna núna í haust og verður því verki lokið á árinu 2018.

Ólafsvíkurvaka var haldin á árinu, tókst hún mjög vel og þeim sem að henni stóðu til mikils sóma. Þá helgi komu til okkar gestir frá vinabæ Snæfellsbæjar, Vestmanna og var afar ánægjulegt að vera með þeim og eiga með þeim góðar stundir. Menningarlífið í Snæfellsbæ var með ágætum og var Frystiklefinn í Rifi þar fremstur í flokki eins og undafarin ár með fjölda viðburða. Haldinn var fjölmenningarhátíð nú í haust og tókst hún afar vel og m.a. heiðruðu forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson og frú Eliza Reid okkur með nærveru sinni.

Eins og undanfarin ár var töluverð aukning á komu ferðamanna til Snæfellsbæjar. Gestum fjölgaði í þjóðgarðinum sem og á tjaldstæðum sveitarfélagsins. Aukning varð á fjölda gistirýma og nýir veitingastaðir voru opnaðir. Ferðamannaiðnaðurinn er atvinnugrein sem er í stöðugum vexti hér í Snæfellsbæ og skapar orðið fjölda starfa bæði beint og óbeint. Þjónusta við ferðamenn er líka þjónusta við heimamenn og við njótum þeirrar fjölbreytni sem boðið er uppá.
Verkfall sjómanna í upphafi árs hafði mikil áhrif á afkomu sjómanna, útgerðarmanna og sveitarfélagsins á árinu auk þess sem lækkandi fiskverð bætti ekki ástandið. Mun minna var landað af afla í höfnum Snæfellsbæjar á árinu 2017 vegna þessa og hafði það áhrif á afkomu sveitarfélagsins og hafnarinnar. Sjávarútvegurinn er okkur mjög mikilvægur og það skiptir samfélagið allt miklu máli að hann gangi sem allra best.

Í lok ársins fengum við þær ánægjulegu fréttir að Alþingi hefði ákveðið að setja fjármuni til framkvæmda á Fróðárheiðinni árið 2018 eða 250 m.kr. og gert er ráð fyrir að þeim ljúki á árinu 2019.
Eins voru tryggðir fjármunir til að hægt væri að hefja framkvæmdir við Þjóðgarðsmiðstöðina á Hellissandi 150 m.kr. sem eru afar ánægjuleg tíðindi fyrir okkur. Þessi tvö mál hafa verið mikil baráttumál hér í samfélaginu í langan tíma og því ánægjan enn meiri að sjá að þau séu að verða að veruleika.

Miklar framkvæmdir hafa verið við Sjómannagarðinn á Hellissandi á árinu og gaman að sjá hversu mikil kraftur er hjá þeim sem því stjórna og enn skemmtilegra að finna hversu mikinn stuðning samfélagið er að veita í verkefnið.
Vinnu við aðalskipulag Snæfellsbæjar lauk að mestu leyti á árinu og er skipulagið komið í formlegt auglýsingaferli sem er mjög ánægjulegt því mikil vinna hefur verið lögð í skipulagið og margir komið þar að.

Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar er nokkuð góð en á árinu 2017 voru tekin lán fyrir framkvæmdum þar sem þær voru það miklar að framlegðin ein og sér stóð ekki undir þeim kostnaði. Á árinu voru ekki greidd niður langtímalán heldur aukið örlítið við þau sem hefur ekki verið gert í langan tíma. Þrátt fyrir þetta er staðan mjög góð m.v. sveitarfélög almennt á landinu.

Íþróttastarfið í sveitarfélaginu var ágætt á árinu og gaman að sjá hvað unga fólkinu okkar gekk vel, þó árangur hjá meistaraflokki kvenna og karla hefði mátt vera betri. Árangur undanfarinna ára hefur verið ótrúlega góður og vakið verðskuldaða athygli og ég hvet okkur öll til að standa stolt að baki okkar fólki og styðja þau sem aldrei fyrr.

Gaman var að sjá hversu góðum árangri íslenskt íþróttafólk náði á árinu bæði í einstaklingsíþróttum og hópíþróttum og megum við vera afar stolt af þessu sem þjóð enda held ég að þetta sé í raun einstakt að svona fámenn þjóð geti gefið af sér slíkan fjölda afreksfólks.
Árið var mér sjálfum gott, í raun ekki tíðindamikið og naut ég þess að vera með fjölskyldunni og vinum þegar tími gafst til þess.

Samstarf innan bæjarstjórnar var afar gott eins og undanfarin ár og mikil samstaða um þau verkefni sem fyrir lágu á árinu. Eins stóðu starfsmenn Snæfellsbæjar sig með miklum ágætum og erum við heppin að hafa á að skipa góðum starfsmönnum.

Í vor verða sveitastjórnarkosningar og er það von mín að sem flestir gefi kost á sér til að starfa í bæjarstjórn. Það er ekki sjálfgefið að fólk gefi kost á sér til slíkra starfa en það er hverju samfélagi mikilvægt að til forystu veljist gott fólk með metnað fyrir sínu samfélagi.
Að lokum óska ég ykkur öllum gleðilegs árs og þakka samstarfið á liðnum árum, megi árið 2018 verða ykkur öllum farsælt.

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri.