Bæjarráð Stykkishólms fundar

Þrátt fyrir að það sé sumar þá eru stöku fundir haldnir á vegum Stykkishólmsbæjar. Þannig fundaði Bæjarráð í sumar en bæjarstjórn er í fríi fram í miðjan september. Fjölmargir liðir voru á dagskrá bæjarráðsfundarins og leitaði Stykkishólms-Pósturinn eftir viðbrögðum bæjarstjóra, Jakobs Björgvins Jakobssonar við nokkrum dagskrárliðum.

Þörungaverksmiðja var til umræðu á fundinum og hefur bæjarstjóri óskað eftir minnisblaði frá Íslenska kalkþörungafélaginu(ÍK) sem væntanlega mun liggja fyrir í haust og þá verða kynnt bæjarbúum og þeim gefið tækifæri til að veita umsögn um málið og koma með athugasemdir. Verið er að koma málinu aftur að stað, að sögn Jakobs, en með öðru sniði þar sem rík áhersla er lögð á samvinnu og sem víðtækast samráð verði haft við íbúa um framhald þess. Óskað er sérstaklega eftir því við ÍK að í minnisblaðinu verða skírðar forsendur fyrir staðsetningu, tengingu við rannsóknar- og nýsköpunarfyrirtæki og upplýsingum um beinan og óbeinan fjárhagslegan ávinning bæjarins af fyrirhugaðri starfsemi. Auk fjölmargra liða á dagskránni var einnig rætt hvort ráða ætti sérfræðing til að endurskipuleggja rekstur og fjármál Stykkishólmsbæjar og koma með hagræðingartillögur í því sambandi. Haraldur L. Haraldsson hagfræðingur kom á fundinn og kynnti þjónustu sína í þeim efnum en framhald málsins ræðst í bæjarstjórn þegar hún kemur saman að sögn Jakobs. Megintilgangur ef úr verður, með svona úttekt er að stjórnendum gefst betra tækifæri til að átta sig á rekstri sveitarfélagsins og stjórn þess. Kostnaður við ráðgjöf af þessu tagi gæti verið 3-4 milljónir króna.