Bæjarráð Stykkishólms fundar

Bæjarráð Stykkishólmsbæjar fundaði 8. febrúar s.l. Bæjarráðið samþykkti samkomulag um lóðir við Austurgötu 12 og Ægisgötu 1 og að gefin verði út ný lóðabréf um þessar lóðir. Umfjöllun um þessar lóðir hafa staðið yfir í langan tíma hjá Stykkishólmsbæ en nú hillir undir málalyktir. Svo er að skilja á fundargerðinni að samkomulagið nái einnig til lóðanna Aðalgata 1, Austurgata 1, Hafnargata 2a, Ægisgata 3 og Hamraendar 1.
Bæjarráðið samþykkir einnig úthlutun á lóðinni Hjallatanga 36 til Birkis Freys Björgvinssonar. Breytingar eru samþykktar á Hafnargötu 4, Harbour Hostel. Byggingarleyfi á Frúarstíg 1 sem að tillögu Skipulags- og byggingarnefndar er talið óverulegar breytingar leggur til að samþykkja leyfið en Bæjarráð frestaði afgreiðslu þess þar sem leita skuli álits höfunda aðal- og deiliskipulags vegna stækkunar byggingarreits. Hafnargata 2a, Sjávarpakkhúsið, sækir um stækkun á eldhúsi en afgreiðslu er frestað. Grenndarkynning þarf að fara fram vegna óskar um bílskúrsbyggingu við Bókhlöðustíg 7. Lóðin Aðalgata 17 er til umræðu á fundinum en henni var úthlutað árið 2015 og er lóðarhafi Vil ehf fyrirtæki Ragnars M. Ragnarssonar. Samþykkt var á þessum fundi að innkalla lóðina og auglýsa aftur til úthlutunar „Þar sem ekki hefur verið veitt byggingarleyfi á lóðinni þrátt fyrir fjölmarga fresti til að hefja framkvæmdir …“ eins og segir í fundargerðinni. Þessi afgreiðsla er samþykkt með 2 atkvæðum gegn 1 auk þess sem bókanir fylgja henni. Annað tengt byggingarmálum er að lagt er fram uppgjör v. byggingu Amtsbókasafns. Fjölmargt annað er tekið fyrir á fundinum sem lesa má um í fundargerð á stykkisholmur.is