Beikontómatsúpa

Takk Þóra Sonja mín fyrir að treysta mér fyrir þessu verkefni, hún veit það vel að maðurinn minn sér um að elda á mínu heimili en það kemur fyrir að ég fæ að láta ljós mitt skína í eldhúsinu.

Ég hef verið að fara öðru hverju norður á Akureyri í skólann undanfarið og hef fengið að vera hjá góðri vinkonu minni sem býr þar og hef einstaka matarást á. Hún er einstaklega lagin við að gera einfaldan heimilismat svo einstaklega bragðgóðan. Fyrstu vikuna sem hún hýsti mig fékk ég hvern glæsiréttinn á eftir öðrum en það sem stóð uppúr var einstaklega bragðgóð tómatsúpa sem hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðan. Þessi góða vinkona mín bauð mér líka upp á nýbakað brauð með sem er auðvitað toppurinn.  Ég ætla að deila með ykkur uppskrift af þessari tómatsúpu sem hún fann á einhverri vefsíðu en slumpar hráefninu og gerir hana þannig að sinni. Á mínu heimili er þessi súpa kölluð beikonsúpa svo krakkarnir séu til í að smakka, en þeim finnst hún mjög góð og borða hana af bestu lyst.

Hráefni:

300-400gr smáttskorið beikon

3 stk sharlotte laukur skorinn smátt

2 hvitlauksrif smátt skorin

4 stk tómatar skornir í litla bita

2 msk tómatpúrra

1L vatn

1 – 1 ½ kjúklingakraftur

1 dós pastasósa, Hunts, cheese & garlic

1 dós skornir tómatar, Hunts roasted garlic

500gr rjómaostur

Salt og pipar

Rifinn parmesanostur

Aðferð:

Beikonið steikt í potti og laukarnir settir útí og steikt vel saman. Tómötunum og púrrunni bætt útí og hrært vel. Vatn, kraftur, pastasósa og tómatar í dós sett útí og soðið saman í nokkrar mín. Rjómaostinum svo bætt útí og látið sjóða í 3 mín. Smakka til með salti og pipar. Svo er nauðsynlegt (að mínu mati) að rífa parmesan ost yfir súpuna þegar hún er komin í skálina.

Uppskriftin dugar í tvær máltíðir á mínu heimili, snilld að frysta afganginn og hita upp seinna.

Þessi súpa passar ljómandi vel við lágkolvetna mataræðið sem ég hef verið að dunda mér við undanfarið ár. Ég ætla því að skora á lágkolvetna vinkonu mína hana Ellu eða Elínu Elísubet Hallfreðsdóttur til að koma með næstu uppskrift, hún er mjög dugleg í eldhúsinu af snapchat að dæma!

Heiða María Elfarsdóttir