Bílvelta við Hellissand

Alvarlegt slys varð við Hellissand í gærmorgun þegar Landrover jeppi valt á veginum. Samkvæmt lögreglunni á Snæfellsnesi voru sex kínverskir ferðamenn  í bílnum og virðist sem ökumaður hafi misst bílinn út í vinstri vegkant, rykkt í stýrið  og misst hann út af á hægri vegkant. Tveir ferðamannanna, karl og kona, eru alvarlega slösuð, annað kastaðist út úr bílnum en nota þurfti klippur til að ná hinum út. Þau voru flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann í Reykjavík ásamt einum aðstandanda, hinir farþegar bílsins sluppu með minniháttar meiðsl og fengu þeir aðhlynningu á Heilsugæslunni í Ólafsvík. Ferðamönnunum tveimur er haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæsludeild Landspítalans.