Bökuðu og skreyttu piparkökur

Piparkökudagur var haldinn á öllum starfsstöðvum Grunnskóla Snæfellsbæjar á síðasta laugardag. Það voru foreldrafélög skólans sem stóðu fyrir honum. Norðan heiðar voru skreyttar piparkökur og hlustað á jólalög. Sunnan heiðar voru skreyttar piparkökur og búið til jólaskraut ásamt því að gluggar voru skreyttir. Á dögum sem þessum koma foreldrar, nemendur, systkini, ömmur, afar og jafnvel frænkur og frændur saman til að skera út og skreyta piparkökur. Hefur þessi dagur fyrir löngu fest sig í sessi og margir sem bíða spenntir eftir honum. Mjög vel var mætt á öllum starfsstöðvum og mun betri mæting en á síðasta ári. Það er spurning hvort piparkökurnar verða borðaðar þær voru svo listavel skreyttar að nota má þær sem skraut.
Birtist í bæjarblaðinu Jökli/þa