Breytt landslag

Undanfarna daga og vikur hefur snjór verið með mesta móti hér um slóðir. Hefur margt oft heyrst til fólks sem segist ekki muna annað eins. Úrkoma í Stykkishólmi mældist 84,7 mm í janúar en víða um landið var hún allt að 40% meiri en meðaltal áranna 1961-1990. Það sem af er febrúar hafa lægðirnar verið allnokkrar og snjókoma talsverð. Snjóruðningstæki eru víða öll í notkun og hafa vart undan. Slysavarnarsveitir hafa haft í nógu að snúast og aðstoðað fólk og ökutæki allann sólarhringinn ef svo ber undir. Vert er að minnast á það hér að styrkja má björgunarsveitir í héraði með því að fara www.landsbjorg.is/vefposi
velja svæði 5 og síðan Björgunarsveitin Berserkir og rennur sú upphæð beint til sveitarinnar í Stykkishólmi.
Snjórinn gerir það að verkum að landslagið breytist eins og sjá má víða um bæinn þar sem snjófjöllin mynda heilu fjallgarðana en líka ef farið er fótganganandi rétt upp fyrir þéttbýlið þar sem mjöllin glitrar í sólinni sem sífellt skín lengur á daginn.