Byggðaráðstefna í Stykkishólmi

Byggðaráðstefnan verður haldin dagana 16. og 17. október nk. á Fosshótel Stykkishólmi en yfirskrift ráðstefnunnar er „Byggðaþróun og umhverfismál, hvernig getur blómleg byggð og náttúrvernd farið saman?“ Að ráðstefnunni standa Byggðastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Stykkishólmsbær. Tilgangur ráðstefnunnar er að tengja saman fræðilega og hagnýta þekkingu á byggðaþróun með það að markmiði að stuðla að sjálfbærri þróun byggðar um allt land. Ráðstefnan er vettvangur fólks úr háskólum, stjórnsýslu, sveitastjórnum og annarra sem áhuga hafa á byggðaþróun og umhverfismálum. Leitast verður við að ná fram ólíkum sjónarmiðum þeirra sem vinna að rannsóknum og stefnumótun á vettvangi byggðamála með áherslu á umhverfismál.
Þétt skipuð dagskrá verður á ráðstefnunni báða dagana og mjörg áhugaverð erindi sem komin eru á dagskrá. Hólmarinn Aðalsteinn Þorsteinsson forstjóri Byggðastofnunar setur ráðstefnuna og við honum tekur Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri. Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu, sveitarstjórna- og byggðamálaráðherra ávarpar fundinn og meðal framsögufólks í dagskránni eru Theódóra Matthíasdóttir, Sigurborg Kr. Hannesdóttir, Róbert Stefánsson og Menja von Schmalensee auk fjölmargra annarra sem koma lengra að. Umfjöllunarefni Snæfellinganna eru náttúrstofur og byggðaþróun, framtíðardraumar í fámennum byggðum og áhrif verndar Breiðafjarðar á byggðaþróun. Önnur umfjöllunarefni verða umhverfismál, skipulagsmál, sjálfbær þróun, þjóðgarðar, mannfjöldaþróun og búsetugæði, ferðaþjónusta frá sjónarhóli heimamanna, búsetuval einstaklinga, friðlýsing svæða, skógrækt og landgræðsla, einstök landsvæði og raforkukerfið á Vestfjörðum. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra er síðasti ræðumaður og í kjölfarið verða fyrirspurnir og umræður.

Dagskrá