Bygging þjónustuíbúða fyrir fatlaða á Snæfellsnesi

Lagalegar skuldbindingar sveitarfélaga gagnvart fötluðum eru á þann veg að þeim ber að gefa fötluðu fólki kost á að eignast heimili og þar með tækifæri til sjálfstæðs lífs og til að njóta einka- og fjölskyldulífs eins og annað fólk. Þau mannréttindi og skyldur stjórnvalda til að tryggja þau eru einnig sérstaklega áréttuð í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslenska ríkið hefur undirgengist. Mjög margt fólk með þroskahömlun hefur beðið árum saman eftir húsnæði víða um land og sumir hafa beðið 10-20 ár eftir því, þrátt fyrir brýna nauðsyn og skýran rétt samkvæmt lögum og mannréttindasamningum.

Sumsstaðar er jafnvel ekki í augsýn áætlanir um byggingu húsnæðis fyrir fatlaða. Hjá Félags- og skólaþjónustunni á Snæfellsnesi er að komast hreyfing á þessi mál. Að sögn Sveins Þórs Elínbergssonar forstöðumanns FSS var það sett í stefnumótun í fyrra að byggja 4-6 þjónustuíbúðir fyrir fatlaða einstaklinga sem hafa ríkar þjónustuþarfir og kjósa að búa og lifa þannig sjálfsæðu lífi með aðstoð í sérstakri þjónustuíbúð. Fyrstu íbúðir verða byggðar í Ólafsvík. Sérstakur samráðs- og rýnihópur var stofnaður í fyrra sem hefur það verkefni með höndum að skoða íbúðir annarra þjónustusvæða sem og reynslu af byggingu og rekstri slíkra íbúða. Hópinn skipa auk stjórnar og forstöðumanns, fulltrúar foreldra, félagsmálanefndar Snæfellinga og fagnefnda málaflokkins í sveitarfélögunum. Nýverið fór hópurinn til Sauðárkróks og Akureyrar til að skoða og kynna sér þjónustuíbúðir sem byggðar hafa verið auk dagþjónustu- og hæfingarstöðvar. Ferðin reyndist, að sögn Sveins, afar gagnleg og fróðleg og viðtökur heimamanna góðar. Á næstu vikum fer hópurinn sömu erinda í Hveragerði og Selfoss, að skoða þjónustuíbúðir fatlaðra.

Stærðarviðmið þjónustuíbúða einstaklinga eru á bilinu 45 – 70 fm að jafnaði, þá er starfsmannaaðstaða utan íbúðanna í sér rými með aðgengi að íbúð þjónustuþega.
Stjórn FSS tekur í kjölfar þessara heimsókna ákvörðun um tímaás hönnunar og byggingar þjónustu-íbúða strax á næsta ári.

Til bráðabirgða, frá og með næstu áramótum, hefst búsetuþjónusta við einstakling í Stykkishólmi. Verður hún framkvæmd á forsendum NPA, notendastýrðrar persónulegrar þjónustu, sem einstaklingurinn og eða talsmenn hans stýra sjálfir með fjármögnun frá FSS og sveitarfélaginu.

Ásbyrgi og Smiðjan
Smiðjan í Ólafsvík flytur í nýtt húsnæði að Ólafsbraut 19 fyrir jól. Núverandi húsnæði, sem var leiguhúsnæði, hefur verið selt. Varðandi Ásbyrgi þá hefur FSS samið við Skipavík í Stykkishólmi um langtímaleigusamning nýs húsnæðis sem fyrirtækið byggir fyrir starfsemi Ásbyrgis að Aðalgötu 22. Að sögn Sveins hefjast byggingarframkvæmdir á næstunni og stefnt að því að húsið verði tilbúið til notkunar síðla næsta haust. /am