Dans, dans, dans

Um síðustu áramót hófust dansnámskeið sem Óðinn Eddy Valdimarsson stendur fyrir í Íþróttahúsinu. Óðinn sem flutti hingað í Hólminn s.l. haust fannst vanta afþreyingu fyrir krakkana og þar sem hann sjálfur var alltaf mikið í íþróttum og dansi ákvað hann að kanna áhuga fyrir dansnámskeiðum hér. Óðinn hefur kennt dans til margra ára og er greinilega ástríðufullur fyrir þessu verkefni. Hann kokkar líka og málar svo hann er fjölhæfur maður. Hann segir í samtali við Stykkishólms-Póstinn viðtökurnar við námskeiðunum hafa farið fram úr björtustu vonum og biðlisti myndast strax í janúar. 36 börn skráðu sig á námskeið og hefur verið mjög gaman að fylgjast með krökkunum taka framförum, því auðvitað voru allir mjög feimnir fyrst. Grunnnámskeiðið Dans 1 fer í að kenna grunnspor og hreyfingar í Hip-Hop og freestyle dansi og svo verður byggt ofan á það, því Óðinn er hvergi nærri hættur og næstu námskeið hafa fengið mjög góðar undirtektir. Óðinn hefur nú flutt danskennsluna í Lionshúsið þar sem meira pláss er og keypt inn í það búnað svo danssalur verði góður þar. Danskennslan er mikil æfing í taktskynjun barna við tónlist og getur nýst víðar. Hóparnir hafa fengið búninga og brúsa og mikill áhugi fyrir því að stofna hóp sem síðar færi til keppni í Reykjavík. Óðinn vill þakka foreldrum traustið og samvinnunna því þau koma að lokapartý námskeiðisins með veitingar og aðstoð.
En hver er Óðinn Eddy?
Hann var einn af fyrstu ættleiddu börnunum á Íslandi, kom hingað 2ja ára frá Indónesíu og aldist upp á Akureyri. Stundaði íþróttir alla tíð og elskaði tónlist og dans eins og hann segir sjálfur. Hann hefur gaman að því að gleðja aðra og er þakklátur viðtökunum bæði á Íslandi og einnig í Hólminum. Hann hefur komið á sambandi við hluta af fjölskyldunni sinni í Indónesíu og vinnur að því hörðum höndum að styrkja þau enn frekar.