Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

En jólin komu samt – viðtal við Sigurð Kristjónsson fv. skipsstjóra

Guðrún amma Sigurðar ásamt nokkrum af systkinum Sigurðar. Í efri röð eru frá vinstri Einar, Ingibjörg, Þórdís og Guðmundur. Í fremri röð eru frá vinstri Elín og Kristjana.
Guðrún amma Sigurðar ásamt nokkrum af systkinum Sigurðar. Í efri röð eru frá vinstri Einar, Ingibjörg, Þórdís og Guðmundur. Í fremri röð eru frá vinstri Elín og Kristjana.

Á́ þessum tíma aðventunni þá er mikið um skreytingar og fólk leggur mikið í að skreyta húsin sín. Gaman er að sjá hve lita­gleðin er mikil og hugmynda­flugið er fjölbreytt. En hefur þetta ávalt verið svona þetta seríu­ og skreytingastúss og hvenær byrjaði það? Á árum áður voru kertin látin duga en ekki ledljós og fleira í þeim dúr sem allir eru með núna. Til að forvitnast meira um tímann sem liðinn er, þá litum við inn til Sigurðar Kristjónssonar fyrrver­andi skipstjóra en hann býr á Dvalarheimilinu Jaðri í Ólafsvík. Sigurður man tímana tvenna í þessu sem öðru og gaman var að fá hann til að rifja upp jólin og uppvaxtarárin er hann var að alast upp með foreldrum sínum og stórum systkinahóp. Guðjón Sigurður Kristjónsson eins og hann heitir fullu nafni er fæddur 5. ágúst 1929 en foreldrar hans voru þau sómahjón Jóhanna Kristjánsdóttir og Kristjón Jóns­son og bjuggu þau í Ytri Bug í Fróðárhreppi.

Ég byrja á að spyrja Sigga eins og hann er oftast kallaður hvort ekki hafi verið lítið um jólaséríur á heimilum er hann var að alast upp? „Það var ekkert svoleiðis í þá daga en jólin komu samt“ segir Sigurður og brosir. „Það voru bara litlu snúnu kertin sem sett voru á jólatrén í þá daga og oft fest með litlum klemmum. Pabbi smíðaði jólatré og svo setti hann greinar á það með því að bora fyrir litlum spýtum sem á voru greinar. Þær voru svo skreyttar með lyngi til að lífga upp á tilveruna en það varð að passa vel uppá svo að ekki kviknaði í.

 

Jóhanna og Kristjón, foreldrar Sigurðar. Í fangi þeirra eru Þórdís og Sigurður.
Jóhanna og Kristjón, foreldrar Sigurðar. Í fangi þeirra eru Þórdís og Sigurður.

Tíu systkinin 

Við vorum tíu systkinin í Ytri Bug og ég er elstur þeirra og fæddur 5. ágúst 1929. Það voru sex strákarnir og fjórar systur og kom fljótlega í ljós að for­eldrar mínir treystu á mig að stjórna þessum hóp eftir að þau fæddust eitt af öðru. Ég hjálpaði foreldrum mínum mikið en hann var bóndi og stundaði einnig sjómennsku er hann gat, en hann átti við veikindi að stríða. Pabbi dó er hann var um fimmtugt en það var árið 1949 sem hann féll frá“ segir Siggi er hann rifjar upp bernskuna. „Ég man að ég fór oft með pabba út í Ólafsvík á kerru sem hestur dró og þá með mjólk til fólks sem hana vantaði, en við vorum alltaf aflögufær. Já pabbi og mamma voru með tvær kýr og um þrjátíu kindur og við höfðum alltaf nóg að bíta og brenna á okkar heimili. Ég man að pabbi fór stundum með beljurnar til Ólafsvíkur til að halda þeim undir naut og stundum fór hann með þær til Friðþjófs út í Rif og ég fékk stundum að koma með.

Úrvals góð kona

Já við keyptum kertin á jólatréð í Eliníusarbúð í Ólafsvík og nánast allt sem vantaði til heimilisins. Pabbi lagði inn kjötið af lömbunum hjá Eliníusi Jónssyni kaupmanni á haustin eftir slátrun, en hann var þá með verslun í Ólafsvík. Svo voru teknar vörur út í reikning. Pabbi og mamma nýttu allt innvolsið þ.e. vambir, hjörtu og lifur fyrir heimilið en annað var lagt inn. Við krakkarnir fengum fatnað í jólagjöf, húfur og vettlinga og þessháttar og svo var mikið um kerti og spil. Það voru vinsælar gjafir á þessum árum. Guðrún móðir mömmu var á heimilinu og hún var alltaf að prjóna á okkur krakkana, alveg úrvals góð kona“ segir Siggi er hann segir frá þessum tíma. „Við krakkarnir í Bug fórum alltaf á jólatrésskemmt­anir í Ólafsvík en þau voru haldin í félagsheimilinu við ána. Þau voru nokkur mjög eftir­minnileg en sr. Magnús Guð­mundsson sóknarprestur stjórn­aði þeim alltaf. Hann sagði alltaf sögur af Rjópnagægi og allir sem á skemmtuninni voru hlustuðu af mikilli athygli svo að heyra mátti saumnál detta. Hann stóð uppi á sviðinu sagði þannig frá að allir hlustuðu af mikilli andakt. Þegar við krakk­arnir fórum á þessar skemmt­anir þá labbaði mamma með okkur þessa leið innan úr Bug en enginn bíll var á heimilinu.

Valdís Magnúsdóttir og Sigurður Kristjónsson.
Valdís Magnúsdóttir og Sigurður Kristjónsson.

Fórum til Ellu frænku í Brekkuhúsi

Einu sinni man ég eftir ferð hjá okkur systkinunum og mömmu á jólaskemmtunina. Þá var sunnan grenjandi rok og rigning og við gengum alla leiðina í þessu veðri. Þegar við komum til Ólafsvíkur þá vorum við öll alveg rennandi blaut svo mamma ákvað að banka uppá hjá Ellu í Brekkuhúsi en hún var systir pabba, til að fá að þurrka fötin okkar inni hjá henni áður en við færum á skemmtunina. Okkur var öllum boðið inn og fötin þornuðu en við komumst á ballið á tilsettum tíma. Pabbi fór aldrei á skemmtun­ina en hann var alltaf heima, eitthvað að gera, gefa rollunum og eitthvað annað. Það var mikill samgangur á milli okkar fjöl­skyldu og Ellu frænku.

Pabbi reykti kjöt fyrir Ólsarana

Mamma fór oft með okkur í kirkju á jólunum og það var gengið út í Ólafsvík í kirkjuna á Snoppunni og sr. Magnús messaði þar. Mamma var alltaf með reykt hangikjöt á jólunum. Alltaf svoleiðis matur á borðum hjá mömmu“ segir Siggi. „og alltaf svo gott að borða hjá henni. Pabbi var með reykhús við hólinn í túninu í Ytri Bug og hann reykti bæði kindalæri og hrossakjöt fyrir mörg heimili í Ólafsvík. Hann gerði það mjög vel og fólk kom aftur og aftur og bað pabba um að reykja. Við lékum okkur krakkarnir mikið á Vaðlinum og við hann. Á veturna þegar var frost þá vorum við oft á skautum. Ég man að ég gerði mér sjálfur skauta úr hrossaleggjum en það var mjög gott rennsli á þeim. Helsta vandamálð var það að festa þá vel á sig en við not­uðumst við þetta krakkarnir. Svo létum við okkur renna á fleygiferð eftir svellinu með úlpurnar fráhnepptar og gerðum einskonar segl úr þeim og það var voða gaman. Einnig gerðum við okkur margskonar báta er við létum sigla á vatninu. Krakkarnir úr Ólafsvík komu mikið á Vaðalinn til að skauta og það var mikið líf þar á þessum árum. Þá var ekkert sjónvarp eða tölvur eins og nú er og allir krakkar eru í. Við krakkarnir urðum sjálf búa okkur til leiki.

Stóra bomban

Siggi segir að honum sé minnisstætt eitt vetrarkvöld 1943 er krakkarnir voru að leika sér á Vaðlinum að þá heyrist þessi svaka mikli hvellur og allir hrökkva í kút og enginn vissi hvað um var að vera en það nötraði jörðin inni í Bug. Meira að segja hafi komið sprungur í klakann á ánni sem rann við húsið. Þá hafði það gerst að tunna með dýnamiti hafi rekið á land í Ólafsvík. Ein­hverjir strákar þar hafi tekið tunnuna og grafið í jörð nálægt þeim stað sem Ólafsvíkurkirkja er núna og hún síðan sprengd og mikill hvellur hafi heyrst og möl, grjót og fleira hafi þeyst um mestallan bæinn. „Það voru nú meiri lætin“ segir Siggi og hlær dátt.

Jóhanna kallaði ekki allt ömmu sína

Ytri Bugur sem fjölskyldan bjó í fyrst, var fyrir neðan veginn en seinna byggði Kristjón stærra og betra hús fyrir ofan veginn. Húsið var ekki stórt og vafalaust hefur stundum verið þröng á þingi. Mikið var að gera hjá hús­móðurinni Jóhönnu á þessum árum, bæði með stóran barna­hóp og standa í heyskap og öðru sem til féll. Jóhanna var mjög dugleg og ósérhlífinn og kallaði ekki allt ömmu sín eins og oft er sagt. Til dæmis er hún fæðir Sigurvin sem var yngstur þeirra systkina en hann er fæddur í Ólafsvík árið 1944 nánar tiltekið í húsinu Baldurs­haga. Þar átti heima Sigrún Sigurðardóttir ásamt fjölskyldu sinni og hjúkraði hún oft fólki sem átti í veikindum og einnig konum sem voru að fæða. Fólk bæði frá Ólafsvík og annarstaðar dvaldi þar hjá henni ef á þurfti að halda þótt húsið væri ekki stórt. Sigrún tók á móti Sigur­vin og stuttu eftir fæðinguna þá gengur Jóhanna með Sigurvin litla í fanginu alla leið inn í Ytri Bug. Þar biðu systkinin eftir henni á bæjarhlaðinu glöð og spennt að sjá litla bróðurinn og hlupu á móti mömmu sinni er þau sáu hana koma fyrir Bugsmúlan. Öll hin börnin fæddust í Ytri Bug.

Sigurður Kristjónsson býr á Dvalarheimilinu Jaðri.
Sigurður Kristjónsson býr á Dvalarheimilinu Jaðri.

Hin Íslenska fálkaorða

Í Ytri Bug bjó fjölskyldan þar til að Kristjón deyr 1949. Þá flytur Jóhanna með allan krakkahópinn sem þá var heima til Ólafsvikur. Seinna fór hún að vinna í Hraðfrystihúsi Ólafs­víkur og var góður starfsmaður. Hún lét ungu konurnar heyra það ef þær voru eitthvað að slugsa i vinnunni. Á þeim tíma sem þau fluttu var til sölu íbúð í einu parhúsanna á Sandholtinu í Ólafsvík í eigu Landsbankans og Sigurður kaupir það fyrir móður sína og systkini. Maður frá bankanum hvatti hann til þess en Siggi sagðist ekki eiga peninga handbæra þá en banka­maðurinn sagði að það yrði ekki neitt vandamál því hann ætti eftir að þéna vel á næstu árum og það gerðist svo sannarlega. Kona Sigga var Valdís Magnúsdóttir frá Hellis­sandi en hún lést fyrir nokkrum árum. Þess má geta að Sigurði var veitt hin Íslenska fálkaorða 1982 fyrir störf sín að sjó­mennsku úr hendi Vigdísar Finnbogadóttur þáverandi for­seta.

Siggi er hress þrátt fyrir háan aldur en hann var 87 ára á þessu ári. Gaman var að rifja lítilsháttar upp gamla tíman með Sigga þótt aðeins væri stiklað á stóru og vonandi hafa þó lesendur jólablaðs Jökuls ánægju ef því. Siggi fær frá mér bestu jóla og nýársóskir og einnig vill hann senda öllum ættingjum og vinum sínum kærar jólakveðjur.

Viðtal: Pétur Steinar Jóhannsson

Birtist fyrst í Bæjarblaðinu Jökli