Félagsmiðstöðin á faraldsfæti

Íþrótta- og æskulýðsnefnd fundaði um miðjan október og á fundinum fór bæjarstjóri yfir hugmyndir um fyrirhugaða byggingu félagsmiðstöðvar. Upphaflega var gert ráð fyrir því að Ásbyrgi og félagsmiðstöðin myndu samnýta hús sem byggt verður á þeim stað sem gamla bensínstöðin er og x-ið er núna. Nú er hinsvegar talið að húsnæðið henti ekki fyrir þessháttar samnýtingu og þessvegna þarf félagsmiðstöðin að fara í annað húsnæði.

Tillaga bæjarstjóra var sú að félagsmiðstöðin færi í Setrið við Skólastíg, um leið og Skipavík hefur framkvæmdir á lóðinni við Aðalgötu og samnýti unglingarnir það húsnæði með eldri borgurum og AA félögum. Einnig kom upp hugmynd frá bæjarstjóra að færa starfsemi félasmiðstöðvarinnar í Eldfjallasafnið, áður en farið verður í framkvæmdir á því húsi. Þannig gæti félagsmiðstöðin verið í gamla bíóinu til hausts 2018 þegar Ásbyrgi flytur á Aðalgötuna í nýtt hús á lóð gömlu bensínstöðvarinnar, við þá flutninga færi félagsmiðstöðin svo í húsnæðið sem Ásbyrgi var í við Skólastíg. Þetta er bókað sem vænlegasti kosturinn ef húsnæðið sem Eldfjallasafnið er núna í er nægilega gott, eins og segir í fundargerð nefndarinnar.

Bæjarstjóri hefur staðfest að búið sé að tryggja Eldfjallasafninu húsnæði í Hafnargötu 7, þar sem Amtsbókasafnið er nú en það flytur að öllum líkindum í desember í nýja bókasafnið við grunnskólann.

am