Fjölmenningarhátíð

Það var mikið um dýrðir í Frystiklefanum á síðasta laugardag þegar Fjölmenningarhátíðin var haldin. Hún hefur nú verið árleg í nokkur ár og heppnast alltaf jafn vel. Var hátíðin mjög vel sótt. Kynnir hátíðarinnar var Dóra Unnars en á hátíðinni flutti Kristinn Jónasson bæjarstjóri ræðu. Einnig flutti forseti Íslands Guðni Th Jóhannesson ræðu en hann og kona hans Eliza Reid komu á hátíðina og gáfu þau sér góðan tíma til að skoða það sem í boði var ásamt því að spjalla við gesti, smakka frábæra rétti frá ýmsum löndum og auðvitað að sitja fyrir á myndum.

Margar uppákomur voru á hátíðinni. Má þar nefna að börn úr Grunnskóla Snæfellsbæjar á Lýsuhóli fluttu tónlistaratriði einnig lásu nemendur úr Grunnskóla Snæfellsbæjar norðan heiðar úr bókinni Blái Hnötturinn eftir Andra Snæ Magnason en hún hefur
verið gefin út á fjölda tungumála. Var meðal annars lesið á pólsku, rúmensku, ensku, þýsku, bosnísku og íslensku.
Ungir rapparar úr Snæfellsbæ tóku lagið og ung stúlka söng á pólsku og karlakórinn Heiðbjört tók líka lagið. Einnig var boðið upp á fjöldan allan af réttum frá hinum ýmsu löndum sem gestir gæddu sér á. Félagasamtök og stofnanir af ýmsum toga voru einnig með kynningar á starfsemi sinni.

Eins og áður hefur komið fram var mjög vel mætt á hátíðina og var Frystiklefinn nánast fullur af fólki og ánægjulegt hversu
margir komu við og kynntu sér það sem í boði var. Vonandi er þessi hátíð komin til að vera þar sem hægt er að fagna fjölbreytileikanum í samfélaginu enda eru fjölmenningasamfélög orðin hluti af okkur og gera samfélagið okkar betra.

þa/Jökull